Fótbolti

Sá ekki fram á tæki­færi hjá Rosenborg og getur ekki hætt að skora fyrir Lyngby

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson í leik með Rosenborg. 
Ísak Snær Þorvaldsson í leik með Rosenborg.  Getty/Paul Devlin

Framherjinn Ísak Snær Þorvaldsson hefur farið frábærlega af stað með Lyngby í danska boltanum. Hann segist hafa þurft að taka skrefið frá Noregi.

Ísak gekk í raðir Lyngby frá Rosenborg í lok júní. Hann skoraði í fyrstu tveimur leikjum sínum fyrir nýjan liðið, gegn Hvidovre í síðustu viku og var aftur á skotskónum í um helgina. Alls hefur hann gert fjögur mörk í fyrstu fimm deildarleikjunum með liðinu.

„Það er bara gott veður hér, gengur vel, gott fólk og allt í toppmálum,“ segir Ísak Snær sem er nú búsettur í Kaupmannahöfn.

„Þetta er bara fínasta deild og það eru hörkuleikmenn í sumum liðum hérna og fínustu lið. Það er kannski aðeins minni fótbolti myndi ég segja en ég bjóst við en inni á milli sér maður einstaklingsgæðin og liðagæði,“ segir Ísak sem ætlar að aðstoða Lyngby við það að komast upp í efstu deild í Danmörku.

„Fjögur mörk í fimm leikjum er ekki slæm byrjun. En ég er með góða liðsfélaga sem gefa manni boltann og þá þarf maður ekki að gera mikið meira en að klára færin.“

Ísak er á láni frá Rosenborg en samningur hans við félagið er út tímabilið 2027.

„Planið var að vera þar áfram og berjast fyrir sæti mínu í liðinu en mér sýndist ég ekki vera fá traustið hjá þjálfaranum og það var bara kominn tími til að færa sig um set og reyna fá leiktíma annars staðar. Lyngby er með klásúlu í samningnum að ef það gengur vel þá geta þeir keypt mig. En ég er bara núna að taka eitt skref í einu og fá leikmínútur.“

Rætt var við Ísak í Sportpakkanum á Sýn í gærkvöld og má sjá viðtalið hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×