Sport

Ein frægasta íþróttakona Úkraínu dæmd í fjögurra ára bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maryna Bekh-Romanchuk fagnar Evrópumeistaratitli sínum með fána Úkraínu.
Maryna Bekh-Romanchuk fagnar Evrópumeistaratitli sínum með fána Úkraínu. EPA/CHRISTIAN BRUNA

HIn úkraínska Maryna Bekh-Romanchuk má ekki keppa í íþrótt sinni eða öðrum íþróttum næstu fjögur árin eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.

Lyfjaeftirlit frjálsra íþrótta, Athletics Integrity Unit, sendi frá sér fréttatilkynningu um að hin þrítuga Bekh-Romanchuk sé nú komin í fjögurra ára bann.

Bannið nær frá 13. maí á þessu ári til 12. maí 2029 eða vel fram yfir næstu Ólympíuleika.

Testósterón fannst í sýni Bekh-Romanchuk í lyfjaprófi sem var tekið 7. desember síðastliðinn. Það var tekið utan keppni. 

Bekh-Romanchuk er ein frægasta íþróttakona Úkraínu en hún hefur ekki keppt síðan í ágúst á síðasta ári.

Stuttu áður en bann hennar var staðfest gaf hún út yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem hún sagðist vera komin í leyfi og sagði að von væri á dómi sem hún væri ósátt við. Hún lýsti yfir sakleysi sínu og sagðist aldrei hafa notað ólögleg lyf.

Bekh-Romantschuk varð í ellefta sæti í þrístökki kvenna á Ólympíuleikunum í París 2024.

Hún á silfur í bæði þrístökki og langstökki á heimsmeistaramóti utanhúss. Hún hefur einnig unnið silfur í þrístökki á HM innanhúss.

Bekh-Romantschuk varð líka Evrópumeistari þrístökki utanhúss 2022 og í þrístökki innanhúss 2021. Hún var þjóðhetja eftir sigur sinn á EM í München í ágúst 2022 en þá voru bara nokkrir mánuðir liðnir frá innrás Rússa í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×