Innlent

Veðrið sem hlaupararnir á laugar­dag geta búist við

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Um fimmtán þúsund hlauparar hyggjast hlaupa af stað nú á laugardaginn. Hér má sjá nokkra hlaupara sem tóku þátt í fyrra.
Um fimmtán þúsund hlauparar hyggjast hlaupa af stað nú á laugardaginn. Hér má sjá nokkra hlaupara sem tóku þátt í fyrra. Vísir/Viktor Freyr

Aldrei hafa fleiri hlauparar skráð sig til leiks í Reykjavíkurmaraþonið sem haldið er árlega á Menningarnótt. Veðurfræðingur spáir hægum vind á laugardagsmorgun en bæta mun í þegar líður á morguninn.

Rúmlega fimmtán þúsund manns hyggjast reima á sig hlaupaskóna og taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem er nú á laugardaginn. Fjögur þúsund af þeim hafa skráð sig í hálfmaraþon sem er nú fullbókað og er búist við að uppselt verði í tíu kílómetra hlaupið á allra næstu dögum. Einnig er hægt að taka þátt í skemmtiskokkinu, þriggja kílómetra hlaupi, og maraþoni.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að búast megi við suðaustan og austan átt framan af morgninum en þó sé enn heldur snemmt að segja nákvæmlega til um veðurspánna.

„Hann er hægur á laugardagsmorgun en svo fer að bæta í vind þegar líður á morguninn,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Hitinn muni ná upp í fjórtán til fimmtán stig þegar best láti. Hlaupaleiðin liggur um Seltjarnarnes og segir Óli Þór vindhraðann þar geta náð upp í tíu metra á sekúndu. Hins vegar sýnir spáin að þurrt verði allan daginn og ágætlega milt verður um kvöldið. 

Ýmiss konar viðburðir verða á laugardag sem endar með flugeldasýningu klukkan tíu. Margir safnast saman á Arnarhól til að horfa á sýninguna og tónleikana sem eru þar á undan. Óli Þór segir að miðað við vindátt ættu þeir sem fylgjast með tónleikunum að fá vindinn í bakið, en tónlistarfólkið sé ekki eins heppið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×