Innlent

Gerður ráðin skóla­stjóra Barna­skóla Kárs­ness

Atli Ísleifsson skrifar
Gerður Magnúsdóttir var ráðin í stöðu aðstoðarskólastjóra Barnaskóla Kársness í febrúar og hefur samhliða gegnt stöðu skólastjóra vegna afleysingar.
Gerður Magnúsdóttir var ráðin í stöðu aðstoðarskólastjóra Barnaskóla Kársness í febrúar og hefur samhliða gegnt stöðu skólastjóra vegna afleysingar. Kópavogsbær

Gerður Magnúsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Barnaskóla Kársness.

Í tilkynningu frá Kópavogsbæ kemur fram að skólinn sé samrekinn leik- og grunnskóli fyrir nemendur á yngsta stigi grunnskólans. Skólinn sé sá nýjasti í Kópavogi og ellefti grunnskóli bæjarins.

„Gerður hefur starfað í leikskólanum Sólhvörfum í Kópavogi frá árinu 2014, lengst af sem aðstoðarskólastjóri og fjögur ár sem leikskólastjóri. Hún starfaði einnig hjá Landvernd í þrjú ár sem verkefnisstjóri Grænfánaverkefnis skóla. Á árunum 2008-2011 gegndi hún starfi deildarstjóra á leikskólanum Urðarhóli auk þess að starfa í nokkur ár á leikskólum í Noregi meðan hún var búsett þar.

Gerður var ráðin í stöðu aðstoðarskólastjóra Barnaskóla Kársness í febrúar og hefur samhliða gegnt stöðu skólastjóra vegna afleysingar. Hún hefur því unnið ötullega að undirbúningi opnunar nýs skóla í samstarfi við kennara, stjórnendur og annað samstarfsfólk í skólanum.

Gerður lauk M.Ed gráðu í stjórnun menntastofnana árið 2022 og B.Ed gráðu í leikskólakennarafræðum árið 2006 frá Háskóla Íslands. Einnig hefur hún lokið viðbótarnámi í stjórnun þróunarverkefna og menntun yngri barna frá Högskolen í Oslo,“ segir í tilkynningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×