Erlent

Á sjöunda tug drepin í stór­tækum á­rásum

Jón Ísak Ragnarsson og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Reykmökkur af vettvangi loftárásanna í dag.
Reykmökkur af vettvangi loftárásanna í dag. AP

Sextíu og fjórir eru sagðir hafa verið drepnir og yfir þrjú hundruð særðir í árásum Ísraela á Gasa síðastliðinn sólarhring. Herflugvélar og skriðdrekar hafa verið nýttir til stórtækra árása á Gasaborg sem Ísraelar hyggjast sölsa undir sig með valdi. 

Árásirnar hafa þrengt enn frekar að þeirri tæplega milljón íbúa sem þar búa en íbúar lýsa nær linnulausum árásum og sprengjuhávaða í norður- og austurhluta borgarinnar í dag að því er fram kemur í umfjöllun BBC.

Þar segir einnig að ísraelskir hermenn hafi á ný hafist við að sprengja upp byggingar í flóttamannabúðunum í Jabalia lengra í norðri. Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels hefur heitið því að hann hyggist vinna bug á Hamas-samtökunum, og sættir sig ekki við gagnrýni alþjóðasamfélagsins vegna framgöngu Ísraela.

Talið er að um 60 þúsund manns hafi verið kallaðir inn í Ísraelsher til að taka þátt í komandi aðgerðum á Gasaborg, en Netanyahu tilkynnti um fyrirætlanir Ísraela um yfirtöku á Gasasvæðinu í síðasta mánuði.

Samningamenn á vegum Katar og Egyptalands eru meðal þeirra sem hafa lagt fram tillögu um 60 daga vopnahlé sem felur meðal annars í sér samning um að um helmingur þeirra 50 gísla sem enn eru í haldi Hamas verði látnir lausir.

Ísraelsk yfirvöld hafa lýst því yfir að þau muni ekki samþykkja neinn samning sem ekki felur í sér lausn allra þeirra gísla sem eftir eru.


Tengdar fréttir

Kalla tugi þúsunda til herþjónustu

Ráðamenn í Ísrael hafa samþykkt áætlanir um að kalla tugi þúsunda manna úr varalið hersins til herþjónustu á næstunni. Það á að gera til undirbúnings mögulegs hernáms Gasaborgar, sem þjóðaröryggisráð Ísrael samþykkt fyrr í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×