Erlent

Habeck hættir á þingi

Atli Ísleifsson skrifar
Robert Habeck var varakanslari Þýskalands frá 2021 til 2025.
Robert Habeck var varakanslari Þýskalands frá 2021 til 2025. EPA

Þýski þingmaðurinn Robert Habeck hefur tilkynnt að hann ætli að segja af sér þingmennsku. Habeck er þingmaður Græningja og var efnahags- og orkumálaráðherra í ríkisstjórn Olaf Scholz, auk þess að vera varakanslari á árunum 2021 til 2025.

Habeck greindi frá því í dag að hann hafi í morgun tilkynnt forseta þýska þingsins um ákvörðun sína að láta af þingmennsku þann 1. september næstkomandi.

Franziska Brantner og Felix Banaszak, leiðtogar Græningja, segjast í samtali við þýska fjölmiðla harma ákvörðun Habeck.

Habeck var kanslaraefni Græningja fyrir þingkosningarnar í febrúar sem boðað var til eftir að ríkisstjórn Jafnaðarmanna, Græningja og Frjálslyndra liðaðist í sundur. Græningjar hlutu hins vegar einungis 11,6 prósent atkvæða í kosningunum, tapaði miklu fylgi á milli kosninga og er nú í stjórnarandstöðu.

Habeck hefur sagt vilja berjast áfram fyrir aðgerðum í loftslagsmálum, umbótum á sviði efnahagsmála og ríkisstyrkjum, en hann hefur á síðustu mánuðum lent upp á kant við vinstri væng Græningjaflokksins sem hefur gagnrýnt stuðning Habeck við strangari stefnu í innflytjendamálum, að því er segir í frétt DW.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×