Körfubolti

„Margir tittir í þessum hópi og máttum ekki við því að missa stóran mann“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hauks Helga verður sárt saknað á EM.
Hauks Helga verður sárt saknað á EM. vísir

Meiðsli Hauks Helga Pálssonar munu hafa mikil áhrif á leik íslenska landsliðsins á EM í körfubolta, að mati Sigurðar Péturssonar og Ólafs Ólafssonar. Þeir segja landsliðshópinn heldur lágvaxinn en eru vissir um að liðið bæti upp fyrir það með öðrum hætti.

Sigurður og Ólafur voru gestir í EM-Pallborðinu á Vísi, þar sem hitað var upp fyrir mótið sem hefst á morgun. Þeir voru báðir í tuttugu manna æfingahópnum fyrir mót en komust ekki í lokahópinn.

Tólf íslenskir leikmenn taka þátt á EM en hópurinn hefur tekið breytingum frá því að hann var fyrst kynntur, Haukur Helgi Pálsson meiddist og Almar Atlason kom inn í staðinn.

„Það einkennir þennan hóp að hann er svolítið lítill. Margir tittir í þessum hópi og máttum ekki við því að missa stóran mann út í sumar. En þetta landslið hefur alltaf verið lítið og það sem þeir eru bestir í er að berjast, vera litlir og leiðinlegir“ segir Sigurður.

Tólf manna landsliðshópur Íslands á EMvísir / grafík

„Þetta er stór missir, einn af okkar mikilvægari leikmönnum. Hann er að gera þessa litlu hluti og líka mikilvægur í vörninni, nautsterkur og þetta er gríðarlega stór missir“ bætti Sigurður svo við.

Ólafur tók undir og sagði mikinn missa að hafa Hauk ekki með, en segir íslensku geðveikina eiga eftir að fleyta litlu mönnunum langt.

„Eins og Siggi sagði þá er gríðarleg blóðtaka að missa Hauk, sem hefur farið á tvö stórmót áður. Hann er með þessa reynslu, bæði að utan og eftir að hafa spilað á mótinu.

Við erum kannski litlir en við erum geðveikir, við komumst mjög langt á því“ segir Ólafur en umræðuna má sjá hér fyrir neðan. 

Klippa: Pallborðið ræðir fjarveru Hauks Helga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×