Skoðun

Loftslagsverkfræði: Verk­efni sem borgar sig ekki að láta bíða

Snjólaug Árnadóttir og Páll Gunnarsson skrifa

Hrafnhildur Bragadóttir og Birna Sigrún Hallsdóttir hafa á undanförnum vikum greint frábærlega frá stöðu loftslagsmála á Íslandi miðað við núverandi stefnu, stjórnsýslu og ábyrgðir stjórnvalda í málaflokknum (Kolefnishlutleysi eftir 15 ár? - Vísir og Nýtt lands­fram­lag – og hvað svo? - Vísir). Þessar greiningar koma á ögurstundu því nú stendur yfir endurskoðun laga um loftslagsmál og frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að auka getu Íslands til að ná eigin markmiðum um kolefnishlutleysi og skuldbindingum gagnvart Parísarsáttmálanum.

Það hefur hins vegar margt breyst á undanförnum fjórum árum sem kallar á frekari endurskoðun á nálgun Íslands í loftslagsmálum hvað varðar stefnu, aðgerðir og regluverk. Þessar breytingar tengjast siðferðilegum og lagalegum skyldum íslenska ríkisins sem eru í örri þróun og ekki síst þjóðaröryggi. 

Nýr raunveruleiki í loftslagsmálum 

Þróun loftslagsbreytinga er ískyggileg. Í fyrsta lagi vegna þess að hlýnun jarðar hefur, undanfarin fjögur ár, aukist langt umfram það sem fimm ára gamlar spár gerðu ráð fyrir. Í öðru lagi hefur þróun í mæligögnum og spálíkönum varpað ljósi á það að hætta vegna svokallaðra loftslagsvendipunkta er mun meiri en áður var talið, m.a. vegna aukinna líkinda á hruni hafstrauma í Norður-Atlantshafi (AMOC).

Það eru ekki nema fimm ár síðan helstu loftslagslíkön spáðu því að við færum yfir 2°C hlýnun á milli 2040 og 2070 en í kjölfar þeirrar hröðu hlýnunar sem nú á sér stað spáir breska veðurstofan því að 2°C hlýnun kunni að verða náð árið 2029. Þegar farið er yfir 1,5°C má búast við mikilli aukningu í náttúruhamförum og stóraukinni hættu á að farið verði yfir krítíska loftslagsvendipunkta.

Til þess að jarðfræðileg kerfi flokkist sem loftslagsvendipunktar þurfa þau bæði að hafa veruleg áhrif á loftslag heimsins og uppfylla ákveðin tæknileg skilyrði. Þau þurfa að hafa fleiri en eitt stöðugt ástand ásamt innri ferlum sem ýta þeim í stöðug ástönd. Tökum hæð Grænlandsjökuls sem dæmi um ferli. Hraði bráðnunar jökuls af völdum sólarljóss er háður hæð jökuls yfir sjávarmáli. Eftir því sem að jökull stækkar þá nær hann meiri hæð yfir sjávarmáli með þeim afleiðingum að yfirborð jökulsins verður kaldara og hann bráðnar síður. Hins vegar þegar jökull bráðnar, þá lækkar hann í hæð, sem eykur þá hitastig við yfirborð og hann bráðnar enn frekar. Vendipunkturinn er þá sá punktur þar sem innri kerfi jökulsins byrja að ýta jöklinum óafturkræft í átt að því stöðuga ástandi að bráðna alveg.

Hvað varðar áhrif af slíku, þá hafa nú fimm loftslagsvendipunktar (Grænlandsjökull, Amazon frumskógurinn, AMOC, Vestur- og Austur-Suðurskaut) verið skilgreindir sem áhættuþættir sem geta haft hörmulegar alþjóðlegar afleiðingar (e. global catastrophic risks). Forsendan fyrir þeirri skilgreiningu er að áætlað sé að breyting á stöðugu ástandi þessara kerfa muni leiða til dauða meira en 10% mannkynsins, ýmist vegna hækkunar sjávarmáls, veðuröfga eða áhrifa á fæðuframboð heimsins. Því hefur verið spáð að ef hafstraumar í Norður-Atlantshafi hrynji, þá fæli það í sér umtalsverðar loftslagsbreytingar, þar með talið vetrarstorma þar sem hitastig gæti farið í -50°C frost á Íslandi og hafís náð til Bretlands, sem og breytingar á úrkomumynstrum sem myndu m.a. útrýma 90% af öllu ræktanlegu landi í Bretlandi og 50% af öllu ræktunarlandi í heiminum fyrir hveiti og maís.

Hrun hafstrauma gæti hljómað eins og vísindaskáldskapur en undanfarin fjögur ár hefur birst fjöldi vísindagreina í virtustu tímaritum heims sem benda á að hættan er mun raunverulegri en áður var talið. Staðan er nú sú að helsti vísindamaður í heimi á þessu sviði, Stefan Rahmstorf, metur það helmingslíkur að AMOC fari yfir vendipunkt á þessari öld. Van Westen, annar af helstu vísindamönnum heims á sviði AMOC, birti í síðustu viku samantekt af greiningum 25 helstuloftslagslíkana sem renna stoðum undir það mat. Greining hans leiddi í ljós að krítíski hitastigsþröskuldurinn fyrir hrun á AMOC eru 2,5°C en ekki 4°C eins og áður var talið. Ef hlýnun takmarkast við markmið Parísarsáttmálans, þ.e. 1,5°C, þá minnka líkur á hruni verulega. Á hinn bóginn virðist nánast útilokað að það náist. Af hundruðum virtra loftslagsvísindamanna árið 2024 töldu 77% þeirra að farið verði yfir 2,5°C þröskuldinn og 42% miðuðu við 3°C. Einungis 6% spáðu því að unnt yrði að takmarka hlýnun við 1,5°C.

Þetta segir þó ekki alla söguna. Vísindamenn hafa í áratugi furðað sig á því af hverju hlýnun jarðar er ekki meiri en raun ber vitni. Samkvæmt skilningi vísinda á sambandi gróðurhúsalofttegunda og hitastigs ætti 2,5°C markinu þegar að vera náð miðað við magn gróðurhúsategunda í andrúmsloftinu. Í ársbyrjun 2025 birtist tímamóta grein sem varpar ljósi á málið og er svarið grátlega kaldhæðnislegt. Það felur nefnilega ekki öll loftmengun í sér gróðurhúsaáhrif. Brennisteinsmengun hefur þau áhrif að auka endurkast sólarljóss af andrúmsloftinu og þar með kæla jörðina. Vandamálið við brennisteinsmengun í veðrahvolfinu er að hún drepur milljónir manns á hverju ári. Árið 2020 náðist ákveðinn árangur í umhverfisvernd þegar að alþjóðasamningar náðu að lækka íblöndunarmagn brennisteinsoxíð í skipaeldsneyti úr 3,5% niður í 0,5%. Þessi breyting hefur hins vegar hækkað hitastig jarðar um 0,2°C. Mannkynið stendur því frammi fyrir erfiðu vandamáli. Ef loftmengun sem nú drepur milljónir árlega er útrýmt þá losnar úr læðingi hlýnun sem samsvarar magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og líkur á loftslagstengdum hörmungum aukast.

Þetta vandamál kristallar það hvernig núverandi stefna í loftslagsmálum hefur mistekist. Í ljósi þeirrar stöðu og þeirrar hættu sem Ísland stendur frammi fyrir ef að hafstraumar í Norður-Atlantshafi hrynja, hafa íslensk stjórnvöld skyldu til að verja íslensku þjóðina og endurskoða stefnu sína í loftslagsmálum.

Þessi skylda er ekki einungis af siðferðislegum toga eða grundvölluð á sjálfsbjargarviðleitni. Hún byggir á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins sem leiða ber í lög.

Vaxandi umfang alþjóðlegra skyldna

Helstu alþjóðlegu skyldur Íslands á sviði loftslagsmála er að finna í loftslagssamningum Sameinuðu þjóðanna og loftslagslöggjöf Evrópusambandsins. Þessar réttarheimildir leggja ríka áherslu á formreglur, markmiðasetningu og kolefnisbókhald en neyðarástandið sem nú er að myndast bendir til þess að reglurnar eða framkvæmd þeirra dugi ekki til að ná tökum á loftslagskrísunni.

Einstaklingar og samtök hafa víða um heim tekið málin í sínar hendur með málsóknum og byggt á því m.a. að aðgerðir einstakra ríkja í loftslagsmálum dugi ekki til að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum eða yfirlýstum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Nú hafa um 3000 slík mál verið höfðuð í um 60 ríkjum en ekkert ennþá í íslenskri lögsögu. Árið 2024 markaði tímamót í baráttunni við loftslagsbreytingar því þá rötuðu loftslagsmál í fyrsta sinn fyrir alþjóðlega dómstóla. Þeir hafa nú varpað ljósi á skyldur ríkja í loftslagsmálum, ekki aðeins skv. loftslagssamningunum heldur einnig hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasamningi Evrópu, mannréttindasamningi Ameríku, venjurétti og meginreglum þjóðaréttar. Þessi breiða nálgun sýnir að aðgerðir og aðgerðaleysi ríkja á sviði loftslagsmála snerta fleiri réttarsvið og eru miklum mun víðtækari en áður var talið.

Mannréttindadómstóll Evrópu staðfesti, 24. apríl 2024, að mannréttindasamtök geti höfðað loftslagsmál í aðildarríkjum, þ.m.t. Íslandi, og að ófullnægjandi loftslagsaðgerðir geti varðað brot á 8. gr. samningsins sem snýr að friðhelgi heimilis, einkalífs og fjölskyldu. Alþjóðlegi hafréttardómurinn lýsti því í ráðgefandi áliti 21. maí 2024 að 170 samningsaðilar, þ.m.t. Ísland, verði að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir, draga úr og stjórna afleiðingum loftslagsbreytinga á hafið, svo sem súrnun sjávar og hækkun sjávarmáls. Samkvæmt Hafréttardóminum kann þetta að kalla á frekari aðgerðir en þær sem loftslagssamningar Sameinuðu þjóðanna kveða á um.

Ráðgefandi áliti Alþjóðadómstólsins frá 23. júlí 2025 hefur verið lýst sem stórsigri í baráttunni við loftslagsbreytingar. Það varpar ljósi á margvíslegar skyldur ríkja, m.a. á grundvelli þjóðréttarlegra venju- og meginreglna, og nær þannig til ríkja sem eru ekki aðilar þeirra milliríkjasamninga sem annars um ræðir. Dómstóllinn staðfestir að margar þeirra skyldna sem hvíla á ríkjum heims snúist um niðurstöður (e. obligations of result) en feli ekki aðeins í sér kröfur um form eða hegðun (e. obligations of conduct). Þá leggur dómstóllinn ríka áherslu á skyldur til mótvægis- og aðlögunaraðgerða og staðfestir m.a. að ríki skuli grípa til ráðstafana sem geta aukið aðlögunarhæfni, styrkt seiglu og dregið úr varnarleysi gagnvart loftslagsbreytingum. Dómstóllinn segir enn fremur að aðlögun sé sérstaklega brýn áskorun í viðbrögðum við loftslagsbreytingum og vísar til nokkurra aðgerða sem gætu, að mati dómsins, uppfyllt aðlögunarskyldur aðila samkvæmt 7. gr. Parísarsamningsins. Þar á meðal eru endurreisn vistkerfa, snemmbúin viðvörunarkerfi (e. early warning systems), innviðir sem auka seiglu (e. resilience-enhancing infrastructure) og aukning fjölbreytni uppskeru (e. regenerative farming, crop diversification). Í þessu tilliti vísar dómstóllinn til Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál því til staðfestingar að aðlögunarmöguleikar sem eru raunhæfir og árangursríkir í dag muni verða takmarkaðir og minna árangursríkir með vaxandi hlýnun jarðar. Þá segir enn fremur að glugginn til að tryggja lífsnauðsynlega og sjálfbæra framtíð fyrir alla sé að lokast og að ákvarðanir og aðgerðir sem framkvæmdar verða á árunum 2020 til 2030 muni hafa áhrif þúsundir ára fram í tímann.

Alþjóðadómstóllinn komst einnig að því að rétturinn til heilnæms umhverfis sé innbyggður í ákveðin grundvallarmannréttindi, svo sem rétt til lífs, og er ríkjum þar af leiðandi skylt að tryggja hreint, heilnæmt og sjálfbært umhverfi svo einstaklingar fái notið tiltekinna mannréttinda. Þá staðfestir dómurinn einnig að meginreglurnar um engan skaða og varúðarreglan eigi við um loftslagsbreytingar og að ríki heims beri því ábyrgð á að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegan skaða af völdum loftslagsbreytinga. Dæmi um fyrirsjáanlegan skaða sem ríki bera ábyrgð á samkvæmt þessu er sá skaði sem felst í því að lágstæð eyríki í Kyrrahafi fari undir sjó við hækkun sjávarmáls, sbr. Kiribati, Tuvalu o.fl. Ábyrgðin er sameiginleg en ólík og ljóst er að þróuð ríki eins og Ísland eiga að vera leiðandi í loftslagsaðgerðum og að aðstoða þróunarríki, t.d. með fjárhagslegri og tæknilegri aðstoð.

Önnur og mun alvarlegri dæmi um fyrirsjáanlegan skaða eru að sjálfsögðu loftslagsvendipunktarnir. Ef íslensk lög samræmast ekki túlkun alþjóðlegra dómstóla á þessum réttarheimildum má leiða að því líkum að íslenska ríkið verði brotlegt að þjóðarétti, sem getur leitt til bótaábyrgðar. En hvað þýðir það eiginlega fyrir loftslagsvendipunkta? Til hvaða aðgerða geta íslensk stjórnvöld gripið til að bregðast við ógninni?

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið

Í grófum dráttum eru einungis tvær leiðir færar til að lágmarka líkur á að fara yfir katastrófíska vendipunkta. Það er í fyrsta lagi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og í öðru lagi að draga úr losun og beita loftslagsverkfræði. Í ljósi þess að ekki sé lengur hægt að treysta eingöngu á samdrátt í losun, er skortur á formlegri stefnu íslenska ríkisins um loftslagsverkfræði ein stærsta hindrunin hvað varðar skyldur okkur til að bregðast við fyrirsjáanlegum skaða af völdum loftslagsvendipunkta.

Með loftslagsverkfræði er átt við tæknilegar lausnir sem ætlað er að vinna gegn áhrifum hlýnunar jarðar, annaðhvort með aðferðum til lækkunar hitastigs (e. climate cooling), einkum þeim sem draga úr inngeislun sólar (e. solar radiation management, SRM), eða með því að fjarlægja gróðurhúsalofttegundir úr andrúmslofti með kolefnisbindingu (e. carbon dioxide removal, CDR). Í sinni víðustu túlkun á hugtakið loftslagsverkfræði við um allar aðferðir kolefnisbindingar, þar með talið hefðbundnar aðferðir á borð við skógrækt og landgræðslu. Í daglegu tali eru þær þó ekki taldar með og virðist það einnig eiga við í íslenskri stjórnsýslu, sbr. stefnu og markmið íslenskra stjórnvalda um kolefnisbindingu og svo afstöðu stjórnvalda um að ekki sé til stefna stjórnvalda um loftslagsverkfræði sbr. svar utanríkisráðuneytisins við umsókn Rastar um rannsóknarleyfi á kolefnisbindingaraðferðinni um aukna basavirkni sjávar.

Það vill svo til að það sem málaflokkinn vantar helst í dag er nákvæmlega það sem Ísland hefur notið sögulegrar velgengni í: málsvörn á alþjóðlegum vettvangi. Það er ennþá nánast algjör skortur á opinberri afstöðu gagnvart loftslagsvendipunktum og loftslagsverkfræði þrátt fyrir fyrirsjáanlega og alvarlega hættu og málaflokkinn sárvantar leiðtoga á alþjóðavettvangi.

Það er kominn tími til þess að íslenskt samfélag eigi alvarlegt samtal um það hvað sé ásættanleg eða óásættanleg áhætta í samhengi fyrirsjáanlegs hruns á hafstraumum. Hvernig stendur á því að íslensk stjórnvöld ætli sér að auka útgjöld til varnarmála um hátt í hundrað milljarða en í því ferli sé ekki minnst orði á þessa grafalvarlegu þjóðaröryggisógn sem við stöndum frammi fyrir?

Það eru ákveðin lykilaugnablik í mannkynssögunni sem krefjast gífurlegs pólitísks hugrekkis. Því miður lifum við nú slíka tíma. Íslendingar geta kosið að taka ábyrgð og afstöðu með eigin þjóðaröryggi og verið í fararbroddi við þróun regluverks og rannsókna um loftslagsverkfræði en allt hefst það með samtali og skýrri stefnu yfirvalda.

Snjólaug er dósent í lögfræði og forstöðumaður Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnunar við Háskólann í Reykjavík.

Páll er sjálfstæður rannsakandi og ráðgjafi á sviði loftslagsvendipunkta. Hann hefur bakgrunn í hugbúnaðarverkfræði, vísisfjárfestingum og sem stofnandi nýsköpunarfyrirtækis tengt loftslagsmálum.




Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×