Fótbolti

Landsliðsþjálfarinn vissi ekkert um út­spil Haaland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland hefur skorað flest mörk allra fyrir norska karlalandsliðið í fótbolta.
Erling Haaland hefur skorað flest mörk allra fyrir norska karlalandsliðið í fótbolta. EPA/TOMS KALNINS

Erling Haaland hefur tekið ákvörðun um að breyta nafni sínum á norska landsliðsbúningnum.

Hér eftir mun ekki aðeins standa Haaland aftan á landsliðstreyju númer níu.

Þetta er reyndar önnur breyting kappans því fyrir nokkrum árum þá tók hann å út og setti tvö a í staðinn. Håland varð að Haaland.

Nú verður Haaland að Braut Haaland aftan á treyjunni.

Norski landsliðsþjálfarinn Ståle Solbakken kom af fjöllum þegar Dagbladet bar þetta undir hann.

„Ég vissi ekkert um þetta,“ svaraði Solbakken á blaðamannafundi.

Braut er millinafnið hans og er gamalt norsk nafn sem kemur úr ætt móður hans.

„Þetta er hans nafn og þetta er því ekkert skrýtið. Ég var samt bara að frétt af þessu núna,“ sagði Solbakken eftir að blaðafulltrúi norska sambandsins tilkynnti um breytinguna.

Haaland hefur skorað 42 mörk í 43 leikjum með norska landsliðinu. Fyrsti leikur hans í nýja búningnum verður á móti Finnlandi í vináttulandsleik á Ullevål leikvanginum í Osló 4. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×