Fótbolti

Daníel Tristan hélt upp á landsliðssætið með stæl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daníel Tristan Guðjohnsen kom Malmö í 1-0 í kvöld. 
Daníel Tristan Guðjohnsen kom Malmö í 1-0 í kvöld.  @Malmo_FF

Daníel Tristan Guðjohnsen var valinn í fyrsta sinn í A-landsliðið í gær og í kvöld skoraði hann fyrra mark Malmö í góðum sigri í umspili Evrópudeildarinnar.

Malmö vann 2-0 útisigur á tékkneska félaginu Sigma Olomouc og þar með 5-0 samanlagt. Malmö verður því í Evrópudeildinni í vetur.

Hinn nítján ára gamli Daníel Tristan var í byrjunarliðinu og kom Malmö í 1-0 á 62. mínútu.

Lengi vel leit út fyrir að þetta yrði sigurmarkið en Emmanuel Ekong gulltryggði sigurinn með öðru marki í uppbótatíma.

Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari hefur mikla trú á Daníel og það er gaman að sjá hann fagna landsliðsvalinu strax í næsta leik á eftir.

Daníel Tristan hefur nú skorað þrjú mörk á tímabilinu en þetta var hans fyrsta mark í Evrópukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×