Handbolti

Ómar Ingi skoraði úr ellefu fyrstu skotunum og endaði með fimm­tán mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon var frábær með Magdeburg í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon var frábær með Magdeburg í kvöld. EPA/Christopher Neundorf

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon byrjar nýtt tímabil af miklum krafti en hann fór á kostum í sigri Magdeburg í kvöld.

Magdeburg byrjaði tímabilið á útivelli á móti Lemgo en vann sannfærandi fjögurra marka sigur, 33-29.

Ómar Ingi skoraði úr ellefu fyrstu skotum sínum í leiknum en endaði með fimmtán mörk og 83 prósent skotnýtingu.

Tíu markanna komu utan af velli en fimm af vítalínunni.

Ómar skoraði níu mörk úr níu skotum í fyrri hálfleik en eftir hann leiddi Magdeburg með fimm mörkum. 14-9. Ómar var því með jafnmörg mörk og allt Lemgo liðið í fyrri hálfleiknum.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var með fimm mörk og þrjár stoðsendingar fyrir Magdeburg.

Elvar Örn Jónsson lék einnig sinn fyrsta leik með Magdeburg en nýtti ekki eina skotið sitt. Hann átti eina stoðsendingu.

Íslendingarnir voru því saman með tuttugu mörk og fimm stoðsendingar í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×