Skoðun

Hingað og ekki lengra – Um þögnina sem styður of­beldi

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir skrifar

Undanfarna daga hefur þjóðin fylgst með umræðu sem hefur beinst að minnihlutahópum á fordæmalausan hátt. Í miðju alls þessa eru hatursfull ummæli, grímulaus ögrun og persónulegar árásir. Það sem eitt sinn þótti óboðlegt í opinberri umræðu virðist nú orðið hversdagslegt — jafnvel ásættanlegt.

Fjölmiðlar virðast í auknum mæli sækjast eftir öfgunum. Þeir sem tala hátt, rífast, ráðast að fólki og skapa klofning fá pláss og hlustun. Þetta er orðið eins konar „söluvænn leikur“ þar sem öfgar og niðurrif eru í forgrunni — en mannvirðing og siðferði víkja.

Við megum ekki láta þetta viðgangast. Ofbeldi kemur í mörgum myndum. Það birtist ekki aðeins í barsmíðum eða öskrum, heldur líka í því að líta undan. Að þegja. Að samþykkja með því að gera ekki neitt.

Margir sem verða vitni að hatursorðræðu gera ekkert. Þeir vilja ekki „blanda sér í þetta“, vilja ekki missa stöðu sína eða verða fyrir sömu árásum. En þegar við stöndum hjá og látum sem ekkert sé, þá erum við ekki hlutlaus. Þá styðjum við óbeint við það sem við erum að horfa á. Og það er líka ofbeldi.

Við sem störfum í hreyfingu launafólks vitum að réttlæti og mannvirðing eru hornsteinar þess sem við berjumst fyrir. Það nær ekki aðeins til launakjara eða vinnutíma, heldur líka til þess hvernig við tölum um hvort annað. Hvernig við stöndum með þeim sem eru á jaðrinum. Hvernig við bregðumst við þegar á fólki er ráðist.

Þetta snýst um meira en eitt mál, eina persónu eða eina umræðu. Þetta snýst um hvaða samfélag við viljum lifa í. Og það samfélag á ekki að byggja á þögn, undanlátssemi eða ótta.

Þess vegna segi ég: Hingað og ekki lengra.

Við verðum öll að axla ábyrgð. Við verðum að segja stopp. Og við verðum að gera það saman.

Höfundur er formaður Bárunnar, stéttarfélags.




Skoðun

Sjá meira


×