Erlent

Þrjár ungar konur fórust í elds­voða í Noregi

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynning barst um eldsvoðann snemma í morgun. Myndin er úr safni.
Tilkynning barst um eldsvoðann snemma í morgun. Myndin er úr safni. Getty

Þrjár ungar konur eru látnar og einnar er enn saknað eftir að eldur kom upp í húsi í Hamri í Noregi í nótt. Konurnar voru átján og nítján ára gamlar.

Norskir fjölmiðlar greina frá því að tilkynning hafi borist um brunann snemma í morgun og sömuleiðis að eldurinn hafi dreift úr sér í næsta hús.

Á myndum má sjá mikinn svartan reyk leggja frá húsunum. Lögregla hefur girt af stórt svæði og er enn unnið að því að slökkva í glóðum.

Upphaflega bárust fréttir um að fjórar manneskjur hafi verið inni í húsinu og hefur lögregla nú staðfest að þrjár ungar konur séu látnir og að einnar sé enn saknað.

Lögregla segir of snemmt að segja til um tengsl kvennanna, en þær eiga ekki allar að hafa búið í húsinu.

Hamar er að finna rúmlega hundrað kílómetrum norður af höfuðborginni Ósló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×