Erlent

Vinstriblokkin með meiri­hluta í Noregi

Eiður Þór Árnason skrifar
Útlit er fyrir að Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, muni láta reyna á stjórnarmyndun. Talið er að viðræðurnar verði torveldar en gangi spilið upp eru allar líkur á því að Støre sitji áfram sem forsætisráðherra.
Útlit er fyrir að Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, muni láta reyna á stjórnarmyndun. Talið er að viðræðurnar verði torveldar en gangi spilið upp eru allar líkur á því að Støre sitji áfram sem forsætisráðherra. EPA/AMANDA PEDERSEN GISKE

Fylking mið- og vinstriflokka í norskum stjórnmálum mælist með meirihluta í þingkosningunum sem fram fóru í dag. Miðað við fyrstu tölur fá þeir flokkar 88 þingmenn með Verkamannaflokkinn í broddi fylkingar. Aðrir flokkar sem teljast til hægri fá 81 þingmann en 85 þarf til að hljóta meirihluta á norska stórþinginu.

Verkamannaflokkur Jonas Gahr Støre mælist stærstur með 28 prósent fylgi þegar 78 prósent atkvæða hafa verið talin. Nemur þetta aukningu upp á 1,7 prósentustig miðað við niðurstöður síðustu kosninga. Næst kemur Framfaraflokkur Sylvi Listhaug með 24,8 prósent atkvæða. Sá er hástökkvari kosninganna og eykur fylgi sitt um 13,2 prósentustig frá árinu 2021. 

Hægri flokkur Ernu Solberg mælist með 14,3 prósent atkvæða og lækkar um sex prósentustig. Telst þetta mikið högg fyrir Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, en flokkur hennar var áður mun stærri en Framfaraflokkurinn.

Miðflokkurinn mælist með 6,0 prósent, Sósíalíski vinstri flokkurinn með 5,3 prósent, Rauðir með 5,3 prósent og Umhverfisflokkurinn/Græningjar með 4,4 prósent. Kristilegi þjóðarflokkurinn mælist með 4,2 prósent og Venstre með 3,4 prósent fylgi. Aðrir flokkar mælast með minna.

Athygli vekur að Miðflokkurinn meira en helmingar fylgi sitt og lækkar um heil 7,5 prósentustig milli kosninga. Flokkurinn sleit ríkisstjórnarsamstarfi sínu við Verkamannaflokkinn í byrjun ársins. 

Norðmenn gengu að kjörborðinu í dag en óvenjustór hluti þeirra greiddi atkvæði utan kjörfundar.EPA/Gorm Kallestad

Efnahagsmál ofarlega á baugi

Síðustu kjörstöðum lokaði í Noregi klukkan sjö að íslenskum tíma. Mikil spenna hefur ríkt yfir niðurstöðum þingkosninganna og lengi verið útlit fyrir að flókin stjórnarmyndun taki við. 

Efnahagsmálin hafa verið ofarlega á baugi hjá kjósendum í kosningabaráttunni vegna dýrtíðar og ójöfnuðs. Raforkuverð hefur meðal annars verið í hæstu hæðum og komið til tals að hætta útflutningi rafmagns til Danmerkur, til að reyna að lækka raforkuverð til norsks almennings. Þá hefur meðal annars mikið verið þrætt um auðlegðarskatt.

Sat einn eftir í minnihlutastjórn

Síðasta kjörtímabil hefur verið viðburðaríkt og sleit Miðflokkurinn ríkisstjórnarsamstarfi sínu við Verkamannaflokkinn í janúar. Síðan þá hefur Verkamannaflokkurinn verið einn í minnihlutastjórn.

Eftir síðustu kosningar árið 2021 leiddi Verkamannaflokkur Jonas Gahr Störe ríkisstjórn landsins með Miðflokknum, gömlum bændaflokki á miðju norskra stjórnmála. Þá varði Sósíalíski vinstri flokkurinn minnihlutastjórn flokkanna tveggja falli eftir að hann hafnaði því að ganga inn í stjórnarsamstarfið, meðal annars vegna ágreinings um umhverfismál.

Miðflokkurinn sleit ríkisstjórnarsamstarfinu við Verkamannaflokkinn vegna deilna um innleiðingu á svonefndum fjórða orkupakka Evrópusambandsins. Hafnaði Miðflokkurinn frekara samstarfi við Evrópusambandið í orkumálum en Verkamannaflokkurinn vildi innleiða reglugerðirnar strax. Miðflokkurinn virðist fara illa út úr þessari ákvörðun og meira en helmingar fylgi sitt milli kosninga, líkt og áður segir. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Líklega snúin staða sama hvernig fer í Noregi

Norðmenn ganga að kjörborðinu á morgun en um helmingur kjósenda hefur þegar greitt atkvæði utan kjörfundar. Líklegt er að flókin stjórnarmyndun taki við, sama hvort vinstri- eða hægriflokkar hafi betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×