Innlent

Vilja styttu af Gunnari í Gunnars­brekku

Atli Ísleifsson skrifar
Kjartan Magnússon var flutningsmaður tillögunnar.
Kjartan Magnússon var flutningsmaður tillögunnar. Vísir/Einar/Anton Brink

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lagt til að styttu af Gunnari Gunnarssyni rithöfundi verði komið fyrir í brekkunni fyrir neðan svokallað Gunnarshús sem stendur við Dyngjuveg í Reykjavík og hýsir nú skrifstofur Rithöfundasambandsins. Áætlað er að byggja á lóðinni tvíbýlishús, en íbúar hafa margir mótmælt hugmyndunum, meðal annars með vísun í að um sé að ræða vinsæla sleðabrekku á veturna.

Borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Björn Gíslason lögðu fram tillöguna á fundi ráðsins í gær og var afgreiðslu hennar frestað að því er segir í fundargerð.

Í tillögunni er lagt til að minnismerki um Gunnar verði komið fyrir í Gunnarsbrekku.

Hugmyndir eru uppi um að byggja á lóðinni tvíbýlishús. Íbúar í nágrenninu eru margir ósáttir með þær hugmyndir.Vísir/Anton Brink

„Brekkan er í lóðinni Laugarásvegi 59, sem var áður eignarlóð við Dyngjuveg 8 þar sem Gunnarshús stendur. Áhersla verði lögð á að minnismerkið verði vel staðsett, t.d. neðan við trjálund sem þarna er, og skerði ekki notagildi brekkunnar, sem vinsæls leiksvæðis og sleðabrautar barna og ungmenna í hverfinu. Setubekk verði komið fyrir við minnismerkið,“ segir í tillögunni.

Undirskriftarsöfnun íbúa

Gunnar Gunnarsson er einn af áhrifameiri rithöfundum Íslands á síðustu öld sem komst margsinnis á metsölulista erlendis. Hann bjó lengst af í Danmörku, en sögusvið nær allra bóka hans var á Íslandi. Á meðal þekkra bóka hans má nefna Aðventa, Svartfugl og Saga Borgarættarinnar.

Kynntar hafa verið hugmyndir um að byggja tvíbýlishús á lóðinni sem verður að hámarki þrjár hæðir með jarðhæð, ásamt hæð og risi á lóð við Laugarásveg 59. Lóðin var áður hluti af eignarlóð við Dyngjuveg 8 þar sem svokallað Gunnarshús stendur og hefur ávallt staðið auð samkvæmt samkomulagi sem Gunnar gerði við borgina. 

Hafin er undirskriftasöfnun gegn framkvæmdunum af hálfu íbúa.


Tengdar fréttir

Íbúar mót­mæla og vilja börn frekar en byggingu í Gunnars­brekku

Íbúar við Laugarásveg og í kring mótmæla byggingu nýs tvíbýlishúss á lóð við svokallað Gunnarshús. Þar er vinsæl sleðabrekka og samkomustaður fyrir börn og fullorðna í hverfinu. Rithöfundasamband Íslands, sem rekið er í Gunnarshúsi, tekur undir mótmælin. Framkvæmdastjóri segist frekar vilja börn en byggingu á lóðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×