Innlent

Annar odd­viti L-listans á Akur­eyri hættir í bæjar­stjórn

Kjartan Kjartansson skrifar
Hulda Elma Eysteinsdóttir, bæjarfulltrúi L-listans á Akureyri, (f.m.) með Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi innviðaráðherrao og Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri.
Hulda Elma Eysteinsdóttir, bæjarfulltrúi L-listans á Akureyri, (f.m.) með Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi innviðaráðherrao og Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri. Isavia

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti lausnarbeiðni Huldu Elmu Eysteinsdóttur, oddvita L-listans og varaformanns bæjarráðs, á fundi sínum í gær. Hún er annar oddviti listans sem segir af sér á kjörtímabilinu.

Afsögn Huldu Elmu tekur gildi miðvikudaginn 24. september. Í fundargerð bæjarstjórnar frá því í gær kemur fram að Hulda Elma segi af sér vegna þess að hún er að flytja úr sveitarfélaginu.

Hún skipaði annað sætið á framboðslista L-listans í sveitarstjórnarkosningunum árið 2022. Listinn hlaut flest atkvæði allra flokka og náði inn þremur mönnum í bæjarstjórn. Myndaði listinn meirihluta þar með fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks.

Hulda Elma varð oddviti L-listans eftir að Gunnar Líndal Sigurðsson sagði af sér sem bæjarfulltrúi eftir aðeins um hálft ár í embætti. Vísaði hann til mikilla anna sem forstöðumaður rekstrar á sjúkrahúsinu á Akureyri sem ástæðu afsagnarinnar.

Staðarmiðillinn Akureyri.net segir að Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir taki sæti Elmu sem aðalmaður í bæjarstjórn en hún skipaði fimmta sæti L-listans fyrir þremur árum.

Halla Björk Reynisdóttir, sem var í þriðja sæti á L-listanum fyrir kosningar, tekur sæti Huldu Elmu sem varaformaður bæjarráðs. Andri Teitsson kemur í stað hennar í velferðarráði Akureyrar og verður varamaður Höllu Bjarkar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×