Sport

„Á endanum vinnum við þennan leik bara verð­skuldað“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Haraldur Guðmundsson þjálfari Keflavíkur
Haraldur Guðmundsson þjálfari Keflavíkur Víkurfréttir

Það verður Keflavík sem leikur til úrslita um laust sæti í Bestu deild karla næstu helgi eftir frábæra endurkomu í einvígi sínu gegn nágrönnum sínum í Njarðvík. Eftir að hafa tapað fyrri leiknum 1-2 á heimavelli snéru Keflvíkingar taflinu við í Njarðvík með frábærum 0-3 sigri og höfðu betur 4-2 samanlagt. 

„Frábær tilfinning að vera búnir að klára þetta og komast í úrslit“ sagði Haraldur Guðmundsson þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn í dag. 

„Leikurinn sem slíkur eða þessi seinni hálfleikur í einvíginu var nokkuð jafnt svona framan af og svo getum við sagt að mörk breyti leikjum og við skorum glæsilegt mark 0-1 og þá er þetta orðin jöfn staða“

„Það fylgja svo tvö önnur góð í kjölfarið. Við skoruðum svo eitt rangstöðumark sem var dæmt af okkur þannig ég held að svona á heildina litið sé þetta bara verðskuldaður sigur“

Eftir að Keflavík skoraði fyrsta markið mátti finna mikinn kraft með Keflvíkingum á meðan Njarðvíkingar urðu svolítið litlir í sér. 

„Já það var það. Þetta er kannski stærsti leikur sem að Njarðvík hefur spilað í sinni sögu og það er ákveðin pressa sem fylgir því og við vissum það að ef við myndum setja á þá mark þá myndi geta komið smá 'panic' hjá þeim“

„Menn voru svo bara gíraðir og mér fannst í fyrri leiknum við líka vera mjög vel stemmdir. Við fáum á okkur þar klaufamark, víti og okkur fannst þetta vera svolítið á móti okkur en mér fannst menn mæta hérna úti með kassann í dag og voru stórir. Á endanum vinnum við þennan leik bara verðskuldað“

Keflavík mætir HK í úrslitum um laust sæti í Bestu deild karla á næsta tímabili en HK hefur skellt Keflavík í báðum leikjum þessara liða í sumar. 

„Það er rétt, við höfum tapað báðum leikjunum nokkuð stórt á móti HK en þetta verður bara verðugt verkefni. Við erum komnir í úrslitaleik og það er kannski öðruvísi heldur en venjulegur leikur í deildinni þannig spennustigið er töluvert hærra og mikið undir þannig við þurfum núna bara fyrst og fremst í vikunni að ná endurheimt og æfa vel. Setjumst svo kannski aðeins yfir HK og hvernig við ætlum að mæta þeim“ sagði Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfari Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×