Fótbolti

Meistararnir á beinu brautina eftir tvo tap­leiki í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. EPA/MATTEO BAZZI

Ítalíumeistarar Inter Milan unnu 2-1 sigur á Sassuolo í síðasta leik dagsins í Serie A, efstu deild karla í knattspyrnu þar í landi. Þá vann Como 2-1 útisigur á Alberti Guðmundssyni og félögum í Fiorentina.

Inter hefur byrjað tímabilið illa og var með aðeins einn sigur að loknum þremur umferðum. Það var hins vegar í raun aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi í dag. Federico Dimarco kom Inter yfir á 14. mínútu og Carlos Augusto tvöfaldaði forystuna á 81. mínútu.

Walid Cheddira klóraði í bakkann fyrir Sassuolo en það var ekki nóg. Lokatölur 2-1 þó Inter hafi bætt þriðja markinu við, það var dæmt af vegna rangstöðu.

Inter er komið með sex stig að loknum fjórum umferðum og situr í 10. sæti. Sassuolo er í 14. sæti með þrjú stig.

Albert kom ekki við sögu þegar Fiorentina tapaði á heimavelli. Sigurmark Como skoraði Jayden Addai eftir undirbúning Nico Paz þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Sigurinn lyftir Como upp í 8. sæti með 7 stig á meðan Fiorentina er í tómu tjóni með aðeins tvö stig í 17. sæti.

Atalanta vann 3-0 útisigur á Torino þökk sé tvennu Nikola Krstović og marki Kamaldeen Sulemana. Heimamenn hefðu getað minnkað muninn en Duvan Zapata brenndi af vítaspyrnu eftir að Atalanta hafði skorað mörkin sín þrjú.

Atalanta er nú í 5. sæti með 8 stig, tveimur minna en topplið Juventus. Á sama tíma er Torino í 12. sæti með 4 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×