Erlent

Fyrir­gefur morðingjanum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Erika Kirk hélt tilfinningaþrungna ræðu á minningarathöfninni.
Erika Kirk hélt tilfinningaþrungna ræðu á minningarathöfninni. AP

Erika Kirk fyrirgefur manninum sem myrti eiginmann hennar. Hún segir að svarið við hatri sé ekki frekara hatur, heldur kærleikur og ást. Kristur sjálfur hefði gert slíkt hið sama, sem og Charlie Kirk maður hennar heitinn.

„Þessi ungi maður. Þessi ungi maður,“ sagði Erika í tilfinningaþrunginni ræðu sinni á minningarathöfn Charlie í kvöld.

„Á krossinum sagði frelsari vor: „Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra“. Þessi ungi maður, ég fyrirgef honum,“ sagði Erika og uppskar standandi lófatak á leikvanginum.

„Ég fyrirgef honum af því það hefði Kristur gert, og það hefði Charlie gert. Svarið við hatri er ekki hatur, svarið sem við þekkjum úr fagnaðarerindinu er kærleikur, og alltaf kærleikur. Kærleikur fyrir óvini okkar, og kærleikur fyrir þá sem ofsækja okkur.“

Þá sagði hún að heimurinn þyrfti á samtökunum Turning point USA að halda. Heimurinn þyrfti samtök sem gætu beint ungu fólki frá veginum til eymdar og syndar, og beint því frekar í áttina að sannleikanum og fegurð.

Hún væri gríðarlega stolt af því að vera tekin við sem forstjóri samtakanna. Hún og Charlie hefðu verið með sömu ástríðu fyrir málefninu, og nú væri verkefni hans orðið verkefni hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×