Íslenski boltinn

Sjáðu vítadóminn í Víkinni og öll mörk gær­dagsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helgi Guðjónsson skoraði úr umdeildri vítaspyrnu í sigri Víkings gegn Fram, 2-1.
Helgi Guðjónsson skoraði úr umdeildri vítaspyrnu í sigri Víkings gegn Fram, 2-1. vísir/diego

Ellefu mörk voru skoruð í fjórum leikjum í Bestu deild karla í gær. Vítaspyrna sem Víkingur fékk gegn Fram var umtöluð.

Víkingur náði fjögurra stiga forskoti á toppi Bestu deildarinnar með því að vinna Fram, 2-1, í gær. Á sama tíma gerði Stjarnan markalaust jafntefli við FH.

Helgi Guðjónsson kom Víkingum yfir á 55. mínútu með marki úr víti sem var afar umdeilt. Rúnar Kristinsson, þjálfari Framara, var allavega mjög ósáttur við dóminn, sem og annað í dómgæslunni, og fékk rautt spjald þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Jakob Byström jafnaði fyrir gestina úr Úlfarsárdalnum á 70. mínútu, sex mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Á 79. mínútu skoraði Gylfi Þór Sigurðsson svo sigurmark Víkings sem hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og gert eitt jafntefli.

Fyrir leikinn gegn FH hafði Stjarnan unnið fimm leiki í röð en sigurgöngunni lauk í gær. Stjörnumenn er í 2. sæti deildarinnar með 41 stig, fjórum stigum á eftir Víkingum. FH-ingar eru í 5. sætinu með 31 stig, tveimur stigum á undan Frömurum sem eru í 6. sætinu.

Í neðri hlutanum vann KA 4-2 sigur á KR á Akureyri. Aron Sigurðarson kom KR-ingum tvisvar sinnum yfir í fyrri hálfleik en KA-menn jöfnuðu í 1-1 með sjálfsmarki Arnars Freys Ólafssonar sem stóð á milli stanganna hjá gestunum.

Birnir Snær Ingason kom heimamönnum yfir, 3-2, með tveimur mörkum í upphafi seinni hálfleiks og í uppbótartíma gulltryggði Andri Fannar Stefánsson sigurinn, 4-2. KA er í 7. sæti deildarinnar með 32 stig en KR í ellefta og næstneðsta sætinu með 24 stig.

Í þriðja sinn í síðustu fjórum leikjum fékk ÍBV á sig jöfnunarmark undir lokin þegar Afturelding kom í heimsókn. Alex Freyr Hilmarsson kom Eyjamönnum yfir með marki beint úr aukaspyrnu á 66. mínútu en Aron Jóhannesson jafnaði með öðru aukaspyrnumarki fjórum mínútum fyrir leikslok, 1-1. Í uppbótartíma var Mosfellingurinn Georg Bjarnason rekinn af velli.

Afturelding, sem hefur ekki unnið leik síðan 23. júní, er með 22 stig á botni deildarinnar en ÍBV er í 8. sæti með þrjátíu stig.

Öll mörkin úr leikjum gærdagsins má sjá hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Upp­gjörið: Stjarnan - FH 0-0 | Tíðindalítið jafn­tefli í Garða­bæ

Stjarnan og FH gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik í úrslitakeppni Bestu deildar karla í kvöld. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu beggja liða en hvorugu liði tókst að koma boltanum í netið. Stjarnan hefur nú leikið átta leiki í röð án taps, og unnið sex þeirra.

Upp­gjörið: KA - KR 4-2 | Akur­eyringar sendu Vestur­bæinga í fallsæti

KA svo gott sem gulltryggði veru sína í efstu deild með 4-2 sigri á KR á Greifavellinum í fyrstu umferð neðri hluta deildarinnar eftir tvískiptingu. KR aftur á móti í fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir og áhyggjur Vesturbæinga minnka ekki. KR leiddi 2-1 í hálfleik en KA menn sneru taflinu við í þeim síðari og unnu sanngjarnan sigur.

Sjáðu þriðju marka­veislu Skaga­manna í röð

Skagamenn virðast vera að finna taktinn á hárréttum tíma en liðið vann í gær sinn þriðja leik í röð þegar ÍA sótti Vestra heim. Lokatölur fyrir vestan 0-4 og hefur ÍA nú skorað tíu mörk í síðustu þremur leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×