Menning

Nor­ræni skálinn á heims­sýningunni í Osaka hlaut gull­verð­laun

Lovísa Arnardóttir skrifar
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, Kristín Eva Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Gagarín og Magnús Elvar Jónsson, hönnunarstjóri Gagarín ásamt starfsmanni skálans í Osaka.
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, Kristín Eva Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Gagarín og Magnús Elvar Jónsson, hönnunarstjóri Gagarín ásamt starfsmanni skálans í Osaka. Hönnunarmiðstöð Íslands

Norræni skálinn á heimssýningunni EXPO 2025 í Osaka hlaut gullverðlaun í flokknum „Best Exhibit / Display“ á World Expolympics. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi útfærslur í nýsköpun og upplifunarhönnun á Heimssýningunni en þar eru 193 sýningar.

Í tilkynningu á vef Hönnunarmiðstöðvarinnar segir að íslenska hönnunarstofan Gagarín, ásamt dönsku hönnunarstofunni Kvorning og norsk-íslensku arkitektastofunni Rintala Eggertsson, hafi hannað sýninguna í Norræna skálanum.

Sýningin fjalli um lífið á Norðurlöndunum með áherslu á gildi, nútímasamfélög, vitundarvakningu og eilífðarsamband okkar við náttúruna. Miðpunktur sýningarinnar sé listaverk úr 700 pappírsörkum og ljósi sem svífi í rýminu og stórt lifandi tuttugu mínútna myndverk The Circle of Trust sem fjallar um árstíðirnar fjórar og lífið á Norðurlöndunum.

Verðlaunagripurinn sem hópurinn fékk. Hönnunarmiðstöð Íslands

Upplifunin dýpki enn með hljóðverki eftir íslensku tónlistarmennina Sindra Má Sigfússon (Sin Fang) og Kjartan Holm.

„Þessi verðlaun sýna það og sanna að það er ekki alltaf stærsta og dýrasta upplifunin sem skilur mest eftir sig, vekur áhuga og veitir innblástur. Hönnunarteymið kom með afar snjalla útfærslu í aðalrýminu þar sem við reyndum að skapa rólega upplifun þar sem aðalatriðið er listaverk útbúið úr pappír, andstætt stórum LED skjám og starfrænu áreiti,“ segir Kristín Eva Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Gagarín

Dómnefnd Expolympics, samanstefndur af fólki með sérþekkingu í arkitektúr, sýningarhönnun, menningarfrásögn og upplifunarhönnun, sem endurspeglar fjölbreytt skapandi sjónarhorn hvaðanæva að úr heiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.