Íslenski boltinn

Úr svart­nætti í sólar­ljós

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ólafur Kristjánsson gat fagnað vel eftir ótrúlega dramatík í Laugardal í kvöld.
Ólafur Kristjánsson gat fagnað vel eftir ótrúlega dramatík í Laugardal í kvöld. vísir / diego

Þróttur sigraði Víking 3-2 í þvílíkri dramatík í Laugardalnum í kvöld. Þróttur sem var einum manni færri og einu marki undir, tókst að skora tvö mörk í uppbótartíma leiksins. Þjálfari Þróttara var eðlilega sáttur eftir leik.

„Víkingur voru byrjaðar að fara niður í hornin og reyna að tefja leikinn, draga úr tempóinu 11 á móti 10. Við fáum þá föst leikatriði sem voru vel framkvæmd og vel gert hjá stelpunum. Frábær karakter að hafa trú á þessu og setja þessi tvö mörk og vinna leikinn,“ sagði Óli Kristjáns, þjálfari Þróttar, ánægður eftir sigur liðsins í kvöld.

Jelena Tinna, leikmaður Þróttar, fékk að líta rauða spjaldið á 84. mínútu og í kjölfarið skoraði Víkingur beint úr aukaspyrnu.

„Það var auðvitað smá brekka eftir að við missum Jelenu útaf með seinna gula spjaldið. Það var lítið eftir og tap hefði verið fúlt. Þannig við tókum smá séns og settum þriggja manna vörn og héldum nokkurn veginn sömu uppstillingu framar á vellinum. Stelpurnar gerðu vel í að setja saman sóknir sem dugðu til þess að ná í sigur.“

Það hlýtur að vera alvöru innspýting fyrir ykkur að koma ykkur upp í annað sæti núna?

„Þegar við við setjum boltann á grasið og spilum þá getum við búið til stöður í kringum teiginn. Og þá fengið horn eða aukaspyrnur ef við náum ekki að búa til færi úr opnu spili. Innspýtingin felst í því að þegar við erum komin svona seint inn í mótið og þú ferð úr einhverju svartnætti í að sjá sólarglætu og sólarljós að þá líður þér vel og þannig líður liðinu inni í klefa núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×