Golf

Fyrir­liði Evrópu greinir frá því hvað Trump sagði við hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Donald Trump heilsaði upp á Luke Donald þegar hann mætti til að fylgjast með Ryder-bikarnum í gær.
Donald Trump heilsaði upp á Luke Donald þegar hann mætti til að fylgjast með Ryder-bikarnum í gær. getty/Andrew Redington

Luke Donald, fyrirliði Evrópu, hefur greint frá því hvað þeim Donald Trump Bandaríkjaforseta fór á milli á fyrsta degi Ryder-bikarsins í gær.

Trump mætti á Bethpage Black völlinn í New York í gær, rétt áður en síðdegiskeppnin hófst. Hann hvatti bandarísku kylfingana til dáða og ræddi svo aðeins við Donald.

„Já, ég hitti forsetann, tók í höndina á honum og heilsaði honum,“ sagði Donald um samskipti þeirra Trumps.

„Hann sagði: Þú ert að verða alvöru leiðtogi. Þetta var fallega sagt hjá honum og gott hjá honum sýna þessum viðburði stuðning.“

Bandaríska liðið var 3-1 undir eftir fjórmenninginn um morguninn. Bandaríkjamenn byrjuðu vel eftir komu Trumps og minnkuðu muninn í 3-2.

Evrópa tók næstu tvö stigin en liðin skiptu síðasta stiginu á milli sín. Evrópumenn eru því með forystuna fyrir seinni tvo dagana, 5 1/2 gegn 2 1/2.

Keppni í fjórmenningi hófst klukkan 11:00 í dag. Sýnt verður beint frá Ryder-bikarnum á Sýn Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×