Erlent

Á­rásin í Manchester skil­greind sem hryðju­verk

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Íbúum á vettvangi og gestum bænahússins var afar brugðið.
Íbúum á vettvangi og gestum bænahússins var afar brugðið. Peter Byrne/PA via AP

Lögreglan í Manchester borg á Bretlandi hefur skilgreint mannskæða árás í bænahúsi gyðinga þar í borg sem hryðjuverk. Þá hafa tveir verið handteknir vegna málsins. Um var að ræða hnífaárás. 

Tveir eru látnir vegna árásarinnar og þrír alvarlega særðir en bænahúsið er við Middle Road í Crumpsall í Manchester. Árásarmaðurinn var felldur af lögreglu á vettvangi. Lögregla sagði áður að grunsamlegur hlutur væri á líki mannsins og var sprengjusveit send á vettvang.

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins kemur fram að lögregla telji sig vita hver árasarmaðurinn er. Ekki sé hægt að deila þeim upplýsingum að svo stöddu. Bænastund fór fram í bænahúsinu þegar árásin átti sér stað en í dag er Yom Kippur, heilagasti dagur gyðinga.

Lögregla er enn með gríðarlegan viðbúnað við bænahúsið. Hefur sérstök þyrla öryggissveitar breska hersins SAS verið kölluð út og er hún á vettvangi. Lögregla hefur sömuleiðis fundið bíl árásarmannsins.

Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands hefur fordæmt árásina og þá hefur Karl Bretlandskonungur gefið frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsir yfir mikilli sorg vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×