Fótbolti

„FIFA getur ekki leyst pólitísk vanda­mál heimsins“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gianni Infantino og Donald Trump. 
Gianni Infantino og Donald Trump.  Getty Images/Richard Sellers

Gianni Infantino, forseti FIFA – Alþjóðaknattspyrnusambandsins, segir sambandið ekki geta leyst pólitísk vandamál heimsins. Mikill þrýstingur er á nú FIFA að meina Ísrael þátttöku í keppnum á vegum sambandsins vegna þjóðarmorðs ísraelska hersins á Palestínumönnum.

Í síðasta mánuði komst nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna að þeirri niðurstöðu að Ísrael væri að fremja þjóðarmorð í Palestínu. Þrátt fyrir það fær Ísrael enn að taka þátt í keppnum á vegum FIFA sem og annarra sambanda á borð við UEFA og FIBA.

Infantino ræddi þetta stuttlega á blaðamannafundi í höfuðstöðvum FIFA. Hinn 55 ára gamli Ítali segir FIFA gera það sem í valdi þess stendur til að nota „kraft fótboltans“ til að sameina fólk í sundruðum heimi.

„Hugur okkar er hjá þeim sem eiga um sárt að binda í hinum mörgu átökum um heim allan. Mikilvægustu skilaboðin sem fótboltinn getur sent eru þau er varða frið og samheldni,“ bætti forsetinn við.

„FIFA getur ekki leyst pólitísk vandamál heimsins en getur, og verður, að nýta fótboltann til að virkja samheldni ásamt menningar- og mannúðarlegum gildum.“

Landslið Ísraels fá enn að taka þátt í hinum ýmsu keppnum og þá er Maccabi Tel Aviv í deildarkeppni Evrópudeildarinnar.

Mannréttindarhreyfingin Amnesty International hefur hvatt FIFA og UEFA til að vísa Ísrael úr mótum á þeirra vegum. Er bent á að Rússlandi og liðum þar í landi var vísað úr keppnum á vegum sambandanna eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Victor Montgliani, varaforseti FIFA, sagði á dögunum að UEFA ætti að taka ákvörðun sem þessa. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þá lofað því að berjast gegn öllum tilraunum til að koma í veg fyrir að Ísrael fái að taka þátt.

Ísrael heldur áfram að neita því að um þjóðarmorð sé að ræða þó öll sönnunargögn bendi til annars.


Tengdar fréttir

Reyna allt til að stöðva að UEFA setji Ísrael í bann

Forkólfar ísraelska knattspyrnusambandsins eru sagðir vinna að því hörðum höndum að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu framkvæmdastjórnar UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, á morgun um að banna ísraelsk fótboltalið frá keppnum á vegum UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×