Erlent

Loft­á­rásir í kjöl­far á­kalls Trumps

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Íbúar borgarinnar forða sér frá henni vegna árásanna.
Íbúar borgarinnar forða sér frá henni vegna árásanna. EPA

Þrjár loftárásir voru gerðar á Gasaborg í kjölfar ákalls Bandaríkjaforseta um að Ísraelar eigi að hætta árásum sínum. Ísraelsk yfirvöld undirbúa sig fyrir fyrsta hluta friðaráforma forsetans.

Að minnsta kosti einn lést í loftárásum Ísraelshers á Gasaborg í morgun. Árásirnar voru gerðar bæði úr þyrlu og orustuþotu hersins. Meðal skotmarka var hópur íbúa sem var að athuga skemmdir sem gerðar höfðu verið á heimili þeirra samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

Ísraelar halda áfram árásum úr ökutækjum í borginni og með drónum. Að minnsta kosti 66 íbúar á Gasa voru drepnir á síðasta sólarhring.

Á mánudagskvöld samþykkti Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, áætlun Donalds Trump Bandaríkjaforseta, um hvernig ætti að koma á friði á Gasa. Í gærkvöldi samþykktu Hamas-samtökin hluta af áætluninni, til að mynda að leysa alla ísraleska gísla úr haldi gegn því að Ísraelar bindi enda á stríðið auk þess að láta völd sín af hendi til óháðrar palestínskrar stofnunar. Forsvarsmenn Hamas hafa áður sagst tilbúnir að sleppa takinu á stjórnartaumunum en hafa ekki viljað leggja niður vopn sín.

Samtökin gerðu athugasemdir við hluta af áformum Trumps og óskuðu eftir að frekari samningaviðræður myndu eiga sér stað.

Eftir svar Hamas kallaði Bandaríkjaforseti eftir því í gærkvöldi að Ísraelar myndu binda enda á árásirnar.

Í morgun skipaði Netanjahú hermönnum Ísraelshers að undirbúa sig fyrir að taka á móti 48 gíslum, en talið er að tuttugu þeirra séu enn á lífi. Netanjahú sagðist ætla að vinna í samstarfi með Bandaríkjaforseta til að ljúka stríðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×