Íslenski boltinn

Sölvi hæst­á­nægður með Gylfa og vill sjá hann í lands­liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar eftir að Víkingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar eftir að Víkingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn. vísir/ernir

Þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Víkings, Sölvi Geir Ottesen, vill sjá Gylfa Þór Sigurðsson í íslenska landsliðinu. Sölvi kveðst hæstánægður með framlag Gylfa í Víkingi.

Á sunnudaginn tryggði Víkingur sér sinn áttunda Íslandsmeistaratitil með 2-0 sigri á FH í Víkinni. Sölvi varð því Íslandsmeistari á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari en hann tók við Víkingi í byrjun ársins af Arnari Gunnlaugssyni sem var ráðinn landsliðsþjálfari. Sölvi hafði áður orðið Íslandsmeistari með Víkingi sem fyrirliði og aðstoðarþjálfari.

Sölvi mætti í viðtal í Brennsluna á FM957 í morgun og fór um víðan völl með þeim Ríkharð Óskari Guðnasyni og Agli Ploder. Sölvi ræddi meðal annars um reynsluna af því að vinna með Gylfa sem gekk í raðir Víkings frá Val fyrir tímabilið.

Sölvi fylgist vel með því sem Arnar er að gera með íslenska landsliðið og vonast til að hann finni pláss fyrir Gylfa í landsliðshópnum.

„Ég er bara mjög spenntur fyrir hérna framhaldinu og Arnar er að gera virkilega vel. Vonandi sér hann hvað Gylfi er búinn að vera að gera núna og og velur hann. Ef við erum að förum á stórt mót eða erum í leikjum sem að þarf einhvern X-faktor,“ sagði Sölvi en Ísland mætir Úkraínu á föstudaginn og Frakklandi á mánudaginn í undankeppni HM 2026. Báðir leikirnir verða á Laugardalsvelli.

Arnar Gunnlaugsson hefur ekki enn valið Gylfa í landsliðið síðan hann tók við því.vísir/anton

Hann hrósaði Gylfa í hástert fyrir það hvernig hann hefur komið inn í hlutina hjá Víkingi.

„Gylfi hefur bara komið stórkostlega inn í þetta hjá okkur Víkingum. Hann er svo mikið „reference“ fyrir aðra leikmenn. Við erum með sendingaæfingar í upphitun og þið hafið kannski verið á fótboltaæfingum og þetta er bara: Komum okkur í gegnum þetta. Hann er bara hundrað prósent í sendingaræfingunni. Fyrir unga leikmenn að sjá hvernig hann æfir. Sáuð þið hérna hvernig hann gefur sig inn í leikina?“ sagði Sölvi. 

„Þetta er okkar einn af 2-3 bestu landsliðsknattspyrnumönnum frá upphafi. Og hann er að æfa svona, hann er að spila svona og sjá hvað hann leggur mikið á sig í leikjunum. Á sendingaræfingum er hann bara með fulla einbeitingu, tilbúinn að bæta sig, að halda áfram að þróa sinn leik því við erum allir að bæta okkur þangað til þú hættir í fótbolta.“

Gylfi er markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins. Hann spilaði síðast fyrir það fyrir ári.vísir/hulda margrét

Gylfi er 36 ára en Sölvi telur að hann geti spilað lengur.

„Miðað við hvernig hann spilar og hugsar um sig. Ég bara gæti ekki verið sáttari með hvernig hann kemur inn og hvernig hann kemur líka inn í klefann. Það eru margir búnir að geta lært af því hvernig hann hugsar um sig og hvernig hann er sem fótboltamaður,“ sagði Sölvi.

Gylfi hefur leikið 22 af 25 leikjum Víkings í Bestu deildinni í sumar og skorað fimm mörk. Víkingar eiga eftir að mæta Blikum á útivelli 18. október og Valsmönnum á heimavelli 26. október.

Hlusta má á viðtalið við Sölva í Brennslunni í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×