Viðskipti innlent

Heldur stýri­vöxtunum ó­breyttum

Atli Ísleifsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, munu gera grein fyrir yfirlýsingu peningastefnunefndar á fundi klukkan 9:30.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, munu gera grein fyrir yfirlýsingu peningastefnunefndar á fundi klukkan 9:30. Vísir/Lýður

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum og verða þeir því áfram 7,5 prósent.

Greint er frá ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans í yfirlýsingu sem birt var klukkan 8:30.

„Verðbólga var 4,1% í september og jókst um 0,3 prósentur frá mánuðinum á undan. Aukningin var fyrirsjáanleg og endurspeglar að töluverðu leyti óhagstæð grunnáhrif.

Greinilegur viðsnúningur hefur orðið í þróun efnahagsumsvifa undanfarið og spennan í þjóðarbúinu hefur hjaðnað í takt við þétt taumhald peningastefnunnar. Seiglan í þjóðarbúskapnum er þó áfram nokkur, launahækkanir mælast töluverðar og þótt verðbólguvæntingar hafi lækkað síðustu misseri mælast þær enn yfir markmiði.

Margt hefur þokast í rétta átt en þær aðstæður hafa ekki enn skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2½% markmiði bankans.

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar. Allir nefndarmenn studdu ákvörðunina.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hélt stýrivöxtunum óbreyttum í 7,5 prósentum í síðustu ákvörðun sinni, 20. ágúst síðastliðinn. Fyrir þá ákvörðun hafði nefndin lækkað stýrivextina fimm sinnum í röð, en frá ágúst 2023 til ágúst 2024 voru stýrivextirnir 9,25 prósent áður en vaxtalækkunarferlið hófst.

Vefútsending klukkan 9:30

Vefútsending með kynningu á yfirlýsingu nefndarinnar fer fram klukkan 9:30 en þar munu þeir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, og Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, gera grein fyrir yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Hægt verður að fylgjast með útsendingunni í spilaranum að neðan.

Greiningardeild Landsbankans spáði því í síðustu viku að peningastefnunefnd myndi halda stýrivöxtum óbreyttum.

Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 19. nóvember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×