Erlent

Taívanir vilja reisa varnarhjúp gegn Kína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
William Lai tók við forsetaembættinu í fyrra.
William Lai tók við forsetaembættinu í fyrra. Getty/Annabelle Chih

Stjórnvöld á Taívan hyggjast reisa loftvarnahjúp til að vernda landið gegn utanaðkomandi ógnum. Þetta tilkynnti William Lai, forseti Taívan, degi eftir að stjórnvöld vöruðu við því að Kínverjar ynnu að því að auka getu sína til að ráðast á landið.

Stjórnvöld í Kína líta á Taívan sem hluta af Kína og hafa ekki útilokað að beita valdi til að ná aftur stjórn þar.

Kínverjar hafa í auknum mæli farið inn í landhelgi Taívan, meðal annars við heræfingar þar sem líkt hefur verið eftir mögulegri innrás. Varnarviðbrögð eru hins vegar umdeild í Taívan, þar sem andstæðingar Lai hafa meðal annars sakað hann um að ýta undir ótta við innrás til að auka við sig stuðning.

Þessi hópur hefur talað fyrir viðræðum við Kína, í stað stigmögnunar.

Varnarmálaráðuneyti Taívan hefur hins vegar varað við því að Kínverjar gætu mögulega beitt þeirri taktík að umbreyta „heræfingum“ skyndilega í innrás, til að koma Taívönum að óvörum.

Lai sagði í morgun að stjórnvöld hygðust auka framlög til varnarmála í þrjú prósent á næsta ári og í fimm prósent fyrir árið 2030. Þetta gæti hins vegar reynst erfitt, þar sem þingið hefur þegar hafnað nokkrum frumvörpum um auknar fjárveitingar það sem af er ári.

Reuters hefur eftir heimildarmönnum að stjórnvöld á Taívan sjái fyrir sér varnarhjúp í líkingu við þann sem skýlir Ísrael og getur skotið niður margs konar skammdræg vopn. Sérfræðingar segja slíkan hjúp hins vegar myndu kosta verulega fjármuni og taka langan tíma að koma upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×