Viðskipti innlent

Ferða­maður sem sá Þing­velli í myrkri fær endur­greitt að hluta

Kjartan Kjartansson skrifar
Ein lykilforsenda þess að njóta fegurðar Þingvalla er að það sé nógu bjart til að sjá þá. Ferðamaðurinn kom þangað hins vegar í myrkri á dimmasta tíma ársins í desember. Myndin er úr safni.
Ein lykilforsenda þess að njóta fegurðar Þingvalla er að það sé nógu bjart til að sjá þá. Ferðamaðurinn kom þangað hins vegar í myrkri á dimmasta tíma ársins í desember. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Ferðaþjónustufyrirtæki þarf að endurgreiða erlendum ferðamanni rúmlega 53 þúsund krónur vegna ferðar um Suðurland sem var ekki í samræmi við auglýsta dagskrá. Ferðamaðurinn þurfti að skoða Þingvelli og Reynisfjöru í myrkri og missti af Jökulsárlóni og Fellsfjöru.

Erlendi ferðamaðurinn var ósáttur við að ferð sem hann keypti fyrir sig og samferðarkonu sína dagana 28. til 30. desember hefði ekki verið í samræmi við lýsingu. Inni í henni átti meðal annars að vera heimsókn á Þingvelli, í Reynisfjöru, Fellsfjöru og til Jökulsárlóns. 

Þegar ferðin var hafin hafi ferðaþjónustufyrirtækið breytt ferðatilhögun á degi tvö og þrjú án nokkurra skýringa. Vegna þess hafi hvorki Jökulsárlón né Fellsfjara verið heimsótt og Þingvellir og Reynisfjara aðeins í myrkri.

Ferðamaðurinn kvartaði til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa og krafðist þess að fá helming kaupverðsins endurgreiddan auk greiðslu kostnaðar vegna bakeymsla sem hann hefði fengið vegna þess að hann hefði ekki fengið viðunandi sæti í rútu á fyrsta degi ferðarinnar.

Ferðaþjónustufyrirtækið er ekki nefnt í úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa og ekki heldur þjóðerni ferðamannsins. Þó kemur fram að ferðamaðurinn hafi greitt ferðina í japönskum jenum.

Brást ekki við kvörtuninni og þarf að veita fjórðungs afslátt

Þegar ferðamaðurinn kvartaði fyrst til ferðaþjónustufyrirtækisins sjálfs bauð það honum fimm prósent afslátt af ferðinni. Því hafnaði hann og fór með málið til kærunefndarinnar.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að henni hefðu ekki verið fyllilega ljósar ástæður þess að ferðaáætluninni var breytt af tölvupósti fyrirtækisins til ferðamannsins. Fyrirtækið kom engum sjónarmiðum eða gögnum á framfæri við nefndina áður en hún kvað upp úrskurð sinn. Því byggði nefndin á lýsingu ferðamannsins á atvikum.

Niðurstaða nefndarinnar var að ferðin hefði ekki verið í samræmi við lýsingu. Fyrirtækið skyldi þess vegna veita ferðamanninum fjórðungs afslátt af kaupverði ferðarinnar, alls 66.550 japönsk jen, jafnvirði rúmra 53 þúsund íslenskra króna, auk fimmtán þúsund króna í málskostnaðargjald.

Kröfu ferðamannsins um greiðslu kostnaðar vegna meðferðar við bakmeiðslum var hafnað þar sem nefndin sagði hana ekki studda neinum gögnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×