Fótbolti

Úkraína hélt sér fyrir ofan Ís­land

Sindri Sverrisson skrifar
Ruslan Malinovskyi hefur verið frábær fyrir Úkraínu í þessari landsleikjatörn.
Ruslan Malinovskyi hefur verið frábær fyrir Úkraínu í þessari landsleikjatörn. Getty/Jakub Porzycki

Úkraína er áfram í 2. sæti í riðli Íslands í undankeppni HM karla í fótbolta, eftir 2-1 sigur gegn Aserbaísjan á heimavelli sínum í Póllandi.

Úkraína er því með sjö stig eftir fjórar umferðir af sex í D-riðli, þremur stigum á eftir Frakklandi en þremur fyrir ofan Ísland, eftir jafntefli Íslendinga og Frakka á Laugardalsvelli.

Ruslan Malinovskyi, sem var sjóðheitur á Íslandi í 5-3 sigri Úkraínu á föstudaginn og skoraði þá tvö mörk, skoraði sigurmark Úkraínu í kvöld um miðjan seinni hálfleik, eftir frábæran samleik.

Oleksii Hutsuliak hafði komið Úkraínu í 1-0 í fyrri hálfleik en Aserar jöfnuðu metin þegar Vitaliy Mykolenko varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Nazar Voloshyn virtist hafa komið Úkraínu í 3-1 seint í leiknum en markið var dæmt af eftir myndbandsskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×