Erlent

Rúss­neskur kaf­bátur í fylgd sænska hersins

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Rússneskur kafbátur í fylgd sænska hersins úr lofti og á legi.
Rússneskur kafbátur í fylgd sænska hersins úr lofti og á legi. Sænski herinn

Sænski herinn hefur í morgun fylgt rússneskum kafbáti á Eystrasalti. Bæði skip og þota sænska hersins fylgja kafbátnum sem í gær sigldi inn Eystrasalt um Stórabelti að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá sænska hernum í morgun.

Herþota og skip úr flota sænska hersins komu til móts við kafbátinn við Kattegat og fylgja honum nú þétt eftir. Um sé að ræða reglubundna aðgerð sem sé framkvæmd í nánu samstarfi við önnur bandalagsríki. Fram kemur í tilkynningunni að sænski herinn hafi góða yfirsýn og mynd af aðstæðum í sínu nærumhverfi.

Í samtali við sænska blaðið Expressen segir Jonas Beltrame-Linné, fjölmiðlafulltrúi hjá sænska hernum, að kafbáturinn sé vel sýnilegur frá yfirborði og allt gangi samkvæmt áætlun. Hann tekur einnig fram að kafbáturinn sé á alþjóðlegu hafsvæði og hafi ekki siglt inn á sænskt yfirráðasvæði.

Ekki liggur ljóst fyrir hvort danski herinn hafi aðkomu að aðgerðinni að því er fram kemur í umfjöllun TV2.

Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hæddist að rússneska flotanum á blaðamannafundi í gær þegar hann sagði að rússneski kafbáturinn Novorossiysk, sem sást á ferðinni meðfram ströndum Frakklands áleiðis að Norðursjó, væri „haltrandi“ á leiðinni heim. Umræddur kafbátur hefur verið bilaður á brölti í nokkrun tíma, en ekki liggur ljóst fyrir að svo stöddu hvort um sama kafbát er að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×