Innlent

Lést sam­stundis þegar ekið var á hana á 143 kíló­metra hraða

Samúel Karl Ólason skrifar
Staðurinn þar sem banaslysið varð.
Staðurinn þar sem banaslysið varð. Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Gangandi kona sem ekið var á á Sæbraut þann 29. september 2024 lést samstundis. Hún varð fyrir bíl sem ekið var norður eftir Sæbrautinni á rúmlega 130 kílómetra hraða en konan gekk yfir götuna þó gönguljósið hafi verið rautt.

Engin hemlaför voru við bílinn þar sem honum var ekið á konuna og var bílnum keyrt um 660 metra áfram, áður en hann var stoppaður, samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var í dag.

Þar kemur fram að ökumaðurinn sagðist ekki hafa séð konuna en slysið var tilkynnt til lögreglu ellefu mínútum eftir miðnætti þann 29. september.

Samkvæmt útreikningum rannsakenda, sem byggja á myndbandi, var bílnum ekið á um 132 kílómetra hraða. Gögn úr farsíma ökumannsins bentu til þess að ökuhraðinn hafi verið um 143 kílómetrar á klukkustund þegar slysið varð en hámarkshraði þar var sextíu.

Hraði bílsins var því meiri en tvöfaldur hámarkshraði.

Sjá einnig: Öku­maðurinn lið­lega tví­tugur

Myrkur var þegar slysið varð en kveikt á vegalýsingu með gulleitu ljósi, samkvæmt skýrslunni. Ljósastaurarnir voru á umferðareyju milli akbrauta og einn þeirra staðsettur við gönguleiðina yfir Sæbraut þar sem ekið var á konuna.

Þá var vegurinn blautur þegar slysið varð en eins og áður segir voru engin bremsuför á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×