Fótbolti

Rekinn eftir tapið gegn Fær­eyjum: „Al­gjör­lega ó­af­sakan­legt og ég axla fulla á­byrgð“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ivan Hasek furðar sig ekki á ákvörðun tékkneska knattspyrnusambandsins.
Ivan Hasek furðar sig ekki á ákvörðun tékkneska knattspyrnusambandsins. Sebastian Widmann - UEFA/UEFA via Getty Images

Eftir óvænt tap gegn Færeyjum hafa báðir landsliðsþjálfarar Tékklands verið reknir úr starfi. Aðalþjálfarinn axlar fulla ábyrgð og segist skilja ákvörðunina.

Tékkland er ellefu milljóna manna þjóð sem á sér ríka fótboltasögu og situr í 39. sæti heimslista FIFA. Tap gegn Færeyjum, rúmlega fimmtíu þúsund manna þjóð sem situr í 136. sæti heimslistans, var því afar óvænt.

Tékkar brugðust mjög illa við tapinu og á fundi knattspyrnusambandsins í dag var ákveðið að reka aðalþjálfarann David Trunda og aðstoðarmann hans, Ivan Hasek, þrátt fyrir að Tékkland sé á leið í umspil um sæti á HM.

Í tilkynningu sambandsins segir að framkvæmdastjórinn hafi tekið ákvörðunina með tapið gegn Færeyjum í huga.

Tékkland er þó, þrátt fyrir tapið, á leið í umspil um sæti á HM. 

Tékkarnir eru enn fyrir ofan Færeyjar í riðlinum og þurfa bara að vinna lokaleikinn gegn Gíbraltar, sem hefur tapað öllum sex leikjunum hingað til og fengið á sig tuttugu mörk. Ef það bregst þá fer Tékkland samt í umspil, vegna þess að liðið vann B-Þjóðadeildina, undir stjórn Hasek.

Óvíst er hver tekur við starfi aðalþjálfara en Hasek skilur ákvörðunina vel og óskar þeim sem tekur við góðs gengis.

„Tapið í Færeyjum er algjörlega óafsakanlegt og ég axla fulla ábyrgð. Landsliðið er nógu gott til að komast á HM. Ég óska þeim og eftirmanni mínum alls hins besta“ sagði fyrrum landsliðsþjálfarinn. Hann þakkaði einnig stuðningsmönnum og bað þá afsökunar á tapinu, í viðtali við Sport í Tékklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×