Fótbolti

Unnu sex­tánda leikinn í röð og eiga heims­metið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Achraf Hakimi og félagar í Marokkó hafa ekki tapað leik í tæp tvö ár.
Achraf Hakimi og félagar í Marokkó hafa ekki tapað leik í tæp tvö ár. epa/JALAL MORCHIDI

Landslið Marokkós í fótbolta karla setti heimsmet með sigri sínum á Lýðveldinu Kongó í fyrradag. 

Marokkó vann Lýðveldið Kongó, 1-0, í lokaleik sínum í undankeppni HM 2026. Þetta var sextándi sigur Marokkóa í röð.

Þar með bættu þeir heimsmetið sem var áður í eigu Spánverja. Frá 26. júní 2008 til 20. júní 2009 vann Spánn fimmtán leiki í röð.

Marokkó jafnaði met Spánar með 1-0 sigri á Barein fyrir viku og bætti svo metið með því að vinna Lýðveldið Kongó á þriðjudaginn.

Youssef En-Nesyri er aðalmarkaskorari Marokkóa.getty/Ulrik Pedersen

Marokkó gerði markalaust jafntefli við Máritaníu 26. mars í fyrra. Síðan þá hefur liðið unnið sextán leiki í röð.

Andstæðingarnir eru kannski ekki þeir sterkustu en Marokkó en fyrir utan Barein hefur liðið eingöngu unnið Afríkuþjóðir.

Marokkó hefur unnið síðustu sjö leiki sína án þess að fá á sig mark. Níger var síðasta liðið sem skoraði gegn Marokkó, 21. mars á þessu ári.

Brahim Díaz, leikmaður Real Madrid, spilaði einn landsleik fyrir Spán fyrir fjórum árum. Í fyrra byrjaði hann að spila fyrir landslið Marokkós.epa/JALAL MORCHIDI

Á síðasta heimsmeistaramóti fyrir þremur árum varð Marokkó fyrsta Afríkuþjóðin til að komast í undanúrslit mótsins. Marokkóar ætla sér væntanlega stóra hluti á HM næsta sumar en þeir tryggðu sér sæti á mótinu í síðasta mánuði.

Síðasta tap Marokkó kom gegn Suður-Afríku, 0-2, í sextán liða úrslitum Afríkukeppninnar 30. janúar í fyrra.

Það er ekki einungis A-landslið Marokkós sem gerir það gott því U-20 ára liðið er komið í úrslit á HM í Síle. Marokkó sigraði Frakkland í vítaspyrnukeppni í undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×