Innlent

Allt bendir til verk­falls

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Smári Jökull Jónsson skrifa
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra. Vísir/Vilhelm

Allt bendir til að flugumferðarstjórar fari í verkfall annað kvöld. Engin niðurstaða fékkst á fundi í kjaradeilu þeirra og Samtaka atvinnulífsins í gær og nýr fundur hefur ekki verið boðaður.

Flugumferðastjórar hafa alls boðað fimm verkföll á næstu dögum. Fyrsta verkfallið er áætlað að hefjist klukkan tíu annað kvöld og ljúki fimm tímum síðar klukkan þrjú aðfaranótt mánudags. Næsta verkfall er boðað aðfaranótt þriðjudags og fleiri í lok næstu viku. Arnar Hjálmsson, formaður félags flugumferðastjóra segir í raun ekki bera svo mikið á milli deiluaðila en það eigi eftir að finna sameiginlega leið út úr horninu sem deilan sé í.

„Við komumst nánast ekkert áleiðis í gær á þeim fundi. Þannig að hún er býsna snúin,“ segir Arnar um stöðuna í deilunni. 

Verði af verkfalli mun það ná til aðflugssvæðis bæði á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli en undantekning verður fyrir sjúkra- og neyðarflug. Arnar segir deiluna snúast um launalið samningsins sem og launaþróun.

„Við erum að reyna að sækja hækkanir í samræmi við almenna launaþróun og verja áunnin réttindi í okkar launatöflu sem eru fyrir. Við erum að reyna að finna einhverja leið til að blanda þessu saman.“

Arnar segir viðræður á milli deiluaðila hafa staðið yfir síðan í apríl á síðasta ári en samningar hafa verið lausir frá áramótum. Hann segist hafa fundið fyrir aukinni pressu frá félagsfólki að stíga það skref sem nú sé búið að stíga. Enginn fundur hefur verið boðaður í deilunni að svo stöddu og Arnar býst við að deiluaðilar muni heyra hvor í öðrum ef glufa opnast.

„Eins og ég met hana í dag þá óttast ég að þessi fyrsta vinnustöðvun verði að veruleika, en ég vona svo sannarlega að það verði ekki fleiri,“ segir hann.

„Ég vona svo sannarlega að hún verði ekki að veruleika því það er ekki markmiðið að fara í vinnustöðvanir sem sýnir sig að við erum búnir ða vera í þessu í 18 mánuði áður en við stígum þetta skref.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×