Öðruvísi líf: „Þar var konum og börnum stillt upp og þau skotin“ Rakel Sveinsdóttir skrifar 19. október 2025 08:00 Þótt það sé oft hlegið í samtali við Gísla Níls Einarsson hjúkrunarfræðing, slökkviliðs- og sjúkraflutningamann, lýðheilsufræðing og framkvæmdastjóra Öldunnar, er á köflum mjög erfitt að hlusta á frásagnirnar hans. Til dæmis frá Bosníu eða neyðaraðstoðinni í Taílandi eftir flóðbylgjurnar þar jólin 2004. Vísir/Anton Brink Gæsahúðin gerir oft vart við sig í spjallinu við Gísla Níls Einarsson, hjúkrunarfræðing, slökkviliðs- og sjúkraflutningamann, lýðheilsufræðing og framkvæmdastjóra Öldunnar. Til dæmis þegar Gísli Níls segir frá manni sem hann aðstoðaði eftir flóðin í Taílandi jólin 2004; mann sem missti alla fjölskyldu sína. „Þegar hann teygði sig í áttina að börnunum var svona metri á milli þeirra,“ segir Gísli og viðurkennir að verða hálf meyr þegar hann rifjar upp söguna. Kaldur hrollur fer líka um mann þegar Gísli lýsir holóttum veggi með gamalli blóðslikju á hópslysasjúkrahúsi í Bosníu. „Þarna voru framin fjöldamorð.“ Í samtalinu er líka oft hlegið. Til dæmis þegar Gísli segir frá því þegar hermenn heilsuðu honum fyrst að hermannasið í Bretlandi. Eða þegar hann, sem stofnandi Öldu öryggisstjórnunarkerfi og apps fyrir sjómenn, ræddi hugmyndina við Pétur Hafstein Pálsson, framkvæmdastjóra Vísis í Grindavík og hans helsta hvatningarmann sem sagði: Gísli minn, ef þú ætlar að fara að vinna í öryggismálum fyrir sjómenn þarftu að byrja á því að fara út á sjó.“ Í Áskorun fjöllum við um erfiðu málin en líka allt það jákvæða og góða sem getur byggt okkur upp eða hvatt aðra til dáða. Áskorun fjallar á mannlegan hátt um öll lífsins verkefni. Myndin til hægri er tekin í Ástralíu árið 1990 og segir Gísli að þarna hafi hann setið í eyðimörkinni og velt fyrir sér hvað framtíðin bæri í skauti sér. Sem svo sannarlega hefur verið heilmargt. Til vinstri eru myndir af Gísla heima í Njarðvík að drekka appelsín og borða pulsu. Hvað annað?! Allur í blóði þegar hann sjóaðist Gísli er fæddur 21. desember árið 1972 og ólst upp í Njarðvík. Faðir Gísla er Einar Guðjónsson, sjómaður og svo á við um föðurbræður hans og afa líka. Móðir Gísla er Sigurbjörg Ólafsdóttir afgreiðslukona en bæði eru þau af Reykjanesinu; Sigurbjörg úr Njarðvík en Einar úr Sandgerði. Gísli á eina eldri og eina yngri systur en eins átti hann eldri hálfbróður sem nú er látinn. „Ég var orkumikill, glaðlegur og uppátækjasamur prakkari. Ævintýragjarn og alltaf úti að leika,“ segir Gísli og skælbrosir þegar hann er spurður um æskuna. Fjórtán ára byrjaði Gísli að vinna við fiskvinnslu og sextán ára var hann sendur á sjóinn. „Pabbi sagði þá við mig: Ef þú getur ekki sinnt náminu, er allt eins gott að þú farir á sjóinn og mannist,“ segir Gísli og hlær. Því þegar þetta var hafði hann fallið í flestum fögum í fjölbrautaskólanum; enda lítill áhugi á að sinna náminu. Gísli var hræðilega sjóveikur. Ég ældi svo mikið að sjómennirnir grínuðust með að það skipti litlu þótt lestin væri hálftóm og ekki fiskaðist; ég fyllti lestina upp með ælu!“ Sem segir að kílóin hafi horfið svo hratt að hann nánast leit út eins og tannstöngull. „Haustið sem ég er sextán ára er ég á frystitogara og vakna um miðja nótt allur í blóði. Það sem kom í ljós var að ég var með blóðnasir því skipið valt svo mikið að ég hafði kastast til og frá í kojunni,“ segir Gísli og útskýrir að síðar hafi komið í ljós hönnunargalli í skipinu sem gerði það að verkum að veltingurinn var óeðlilegur. „Ég hélt að skipið væri að sökkva, ekki síst þegar ég kom fram og sá alla þessa reyndu sjómenn, náhvíta í framan ræða björgunarbúninga og björgunarbáta.“ Á miðjum rækjumiðum á milli Íslands og Grænlands, þar sem allir bjuggu sig undir það versta. Betur fór þó á en horfðist. „Ég var svo hræddur að ég sjóaðist við hræðsluna. Hef aldrei orðið sjóveikur eftir þetta.“ Gísli var sendur á sjóinn 16 ára til að mannast. Enda hafði hann þá skítfallið í fjölbrautaskólanum og sýndi náminu engan áhuga. Gísli var sjóveikur allan tímann en ætlaði ekki að láta pabba sinn hafa yfirhöndina heldur þrauka þetta út.Vísir/Anton Brink Það sem Ástralía kenndi Eftir níu mánuði á sjó var Gísli orðinn moldríkur; alltaf úti á sjó og gat engu eytt. „Það varð til þess að ég fékk leyfi foreldra minna til að fara sem skiptinemi til Ástralíu, sem ég greiddi sjálfur fyrir.“ Ástralía kenndi Gísla heilmargt og hafði án efa þau áhrif að í dag er Gísli menntaður hjúkrunarfræðingur, slökkvilið- og sjúkraflutningamaður með meistarapróf í heilbrigðisstjórnun og lýðheilsu og MBA-gráðu. Gísli fór líka í Tryggingaskólann og hefur setið í stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og stuðningsfélagsins Kraftur fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur. Ég þurfti að vera í skólabúning í Ástralíu og þar var aginn mikill. Við ávörpuðum kennara sem herra og frú og ég myndi segja að í Ástralíu hafi ég lært að bera virðingu fyrir skóla og námi.“ Eftir stúdent flutti Gísli á Akureyri og hóf nám í hjúkrunarfræði. „Ég ákvað að læra hjúkrun við Háskólann á Akureyri sem lagði áherslu á að útskrifa dreifbýlishjúkrunarfræðinga sem gætu starfað sjálfsætt án lækna. Því markmiðið var að fara að starfa erlendis hjá Sameinuðu þjóðunum í friðargæslu,“ útskýrir Gísli. Sem með náminu hóf störf hjá slökkviliðinu og í sjúkraflutningum. Sem hann sá fyrir sér að væri góður undirbúningur fyrir vettvangsvinnu erlendis. „Sem rétt var því til dæmis var fyrsta útkallið sem ég fór í með slökkviliðinu banaslys.“ Eftir útskrift úr hjúkrunarnáminu starfaði Gísli á slysa- og bráðadeildinni á Landspítalanum í Fossvogi en réði sig síðan sem hjúkrunarfræðing á sjúkrahúsinu á Siglufirði. Þetta var árið 2002 en þá hafði Gísli líka skráð sig í íslensku friðargæsluna hjá Utanríkisráðuneytinu. Það gengur þannig fyrir sig að í raun veit fólk aldrei hvenær kallið kemur. Gísli samdi því við sjúkrahúsið um að geta farið með stuttum fyrirvara ef þyrfti. „Sem var gott því fljótlega kom í ljós að ég var á leið til Bosníu. Þar sem ég átti að vera vaktstjóri á einni deildinni á hópslysasjúkrahúsi í fjöllunum. Áður en ég fór þangað, þurfti ég hins vegar að klára tveggja mánaða herþjálfun í Bretlandi.“ Reynt að hringja heim frá Ástralíu, á slökkviliðsbílnum á Akureyri þar sem Gísli lærði hjúkrun og nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur. Gísli stefndi snemma að því að fara að starfa erlendis og skráði sig í íslensku friðargæsluna hjá Utanríkisráðuneytinu. „Good morning sir!“ Það er ekki annað hægt en að hlæja þegar Gísli lýsir upphafinu á herþjálfuninni. Því þar sem Gísli átti að vera með mannaforráð á sjúkrahúsinu, fékk hann strax tignina Kapteinn. Síðar varð Gísli reyndar hækkaður í tign, Major hjá breska hernum, en þegar þetta var, lýsir Gísli einu fyndnu atviki svona: „Fyrstu nóttina á herstöðinni svaf ég eiginlega ekkert enda er það svolítið mögnuð upplifun að vera allt í einu komin frá Siglufirði í herþjálfun til Bretlands,“ segir Gísli og bætir við að herþjálfun sé ekkert ólík því sem fólk sér í bíómyndum. Ég þurfti að klæða mig rétt og eftir kúnstarinnar reglum. Húfan þurfti að vera rétt á og merki framan á herjakkann staðfesti tignina mína.“ Íslendingurinn Gísli hafði þó aldrei kynnst neinni stéttaskiptingu. Frekar en nokkur annar Íslendingur. „Ósofinn ákvað ég að klæða mig og fara út í morgungöngu. Kyrrðin varð algjör og þoka yfir og ég hugsaði með mér: Mikið er þetta fallegt.“ Álengdar sá Gísli tvo unga hermenn nálgast. „Þegar þeir voru síðan komnir nánast að mér, snarstoppuðu þeir, smelltu saman hælum og heilsuðu af hermannasið hátt og snjallt: Good morning sir!“ segir Gísli og skellihlær. Mér krossbrá sjálfum. Var engan veginn farinn að átta mig á áhrifunum frá þessari háu tign kafteinsins. Þar sem aðrir í hernum voru einfaldlega þjálfaðir í að heilsa mönnum eins og mér með þessum hætti.“ Manni setur hljóðan að hlusta á Gísla lýsa aðstæðum í Bosníu þar sem hann starfaði á vegum breska hersins á hópslysasjúkrahúsi í fjöllunum. Þar sem fjöldamorð voru framin og enginn lífsneisti sást í augum sumra barna. Sem augljóslega höfðu upplifað skelfileg áföll. Á mynd má sjá starfsmenn sjúkrahússins. Blóðslettur og fjöldamorð Hópslysasjúkrahúsið sem Gísli starfaði á í Bosníu var við lítinn bæ í fjöllunum og þar sem þetta var eftir stríð, segir Gísli eymdina hafa verið mikla. „Atvinnuleysi var yfir 90% og fátæktin mjög mikil. Þegar maður fór í bæinn tók maður alltaf með sér fullt af ávöxtum, súkkulaði og mat til að gefa svöngum börnum. Fyrir þau var þetta eins og gull.“ Gísli segir að þótt stríðinu hafi verið lokið, hafi svo margt í umhverfinu átakanlega minnt á allt það sem á undan hafði gengið. Á sjúkrahúsinu var veggur uppfullur af holum eftir riffilskot. Á veggnum var líka stór rauð blóðslikja föst í steypunni. Því þar var konum og börnum stillt upp og þau skotin. Þarna áttaði maður sig á því hvað grimmdin og heiftin getur verið mikil í heiminum.“ Eitt augnablik situr alltaf eftir í huga Gísla. „Ég gaf lítilli stelpu ávöxt eða súkkulaði og hún var auðvitað ánægð að sjá eins og önnur börn. Nema að þegar ég leit í augun hennar sé ég að þar var enginn lífsneisti. Það var eins og augun væru dáin. Mjög lýsandi fyrir barn sem hefur lent í einhverju skelfilegu áfalli.“ Þó minnist Gísli tímans í Bosníu með hlýjum hug. Rifjar til dæmis upp jólagleði sem starfsmennirnir stóðu fyrir til að gera sér glaðan dag. Þar sem þeir sameinuðu ólíka jólasiði því þarna voru heilbrigðisstarfsmenn frá ólíkum löndum; Hollandi, Kanada, Bretlandi og einn frá Íslandi. Um tíma leysti Gísli af sem æðsti yfirmaður Breta á sjúkrahúsinu í kjölfar stjórnunarvanda á herstöðinni. „Í lok túrsins míns í Bosníu ég hækkaður í tign fyrir að stíga inn í erfiðar aðstæður á sjúkrahúsinu og mér boðið að ganga formlega í breska herinn. En á þeim tímapunkti var seinna Íraksstríðið byrjað og ég hefði því verið sendur þangað. Eftir alvarlega íhugun ákvað ég þó að fara heim. Þá hafði ég verið þarna í tæpt ár í breska hernum..“ Það var erfitt að koma aftur til Íslands og hlusta á fólk jafnvel kvarta undan því að eiga ekki nógu flottan síma. Í samanburði við hörmungarnar í Bosníu fannst Gísla fólk á Íslandi almennt ekki átta sig á því hversu gott það hefði.Vísir/Anton Brink Slysið á Eskifirði Það var ekki auðvelt fyrir Gísla að lenda eftir Bosníudvölina. Það tók mig um hálft ár að jafna mig. Því mér fannst erfitt að koma til Íslands þar sem fólk kvartaði og kveinaði yfir alls kyns hlutum. Jafnvel því að eiga ekki nógu flottan síma. Mér fannst fólk hér ekki skilja hvað það hefði það gott eða hvernig aðstæður væri hjá fólki sem einfaldlega ætti ekkert.“ Gísli byrjaði á því að fara norður á Siglufjörð. En flutti síðan til Reykjavíkur og leysti af sem deildarstjóri á gæsludeildinni í eitt ár en þaðan lág leiðin óvænt til Reyðarfjarðar þar sem hann starfaði í þrjú ár við álversframkvæmdirnar. „Þar starfaði ég sem lykilstarfsmaður öryggisteymis Bechtel sem er yfir aldagamalt byggingarfyrirtæki sem sá um að byggja álverið. Öryggismenning og áherslur sem Bechtel kom með til Íslands var eitthvað sem hafði ekki sést áður á Íslandi og lyfti öryggismálunum á íslenskum vinnumarkaði á hærra plan,“ segir Gísli og nefnir nokkur dæmi. „Til dæmis voru tilviljunarkennd áfengis- og vímuefnapróf framkvæmd tvisvar á dag á starfsmönnum til að athuga áfengi eða vímuefni í blóðinu og sá ég um allar ráðningaskoðanir með öryggissjónarmiðin að leiðarljósi.“ Sem þýddi til dæmis að athuga hvort umsækjandi sem rafvirki væri ekki litblindur, með kraft í báðum höndum til að sinna starfinu sínu, hvort starfsfólk væri nokkuð veikt í baki og ekki með burði fyrir það starf sem það ætti að takast á við og svo framvegis. „Svona ráðningaskoðanir snúast í raun um hvort það sé eitthvað í heilsufarinu eða líkamsástandi fólks sem ógni öryggi þeirra í því starfi sem viðkomandi á að sinna.“ Þótt Gísli væri nú kominn á öruggar slóðir, lenti hann þó í einu stærsta efnaslysi sögunnar á Íslandi. En það var sumarið 2006 þegar stórhættulegt klórgas lagði um sundlaugarbygginguna og yfir glænýja sundlaug á Eskifirði. Um þrjátíu manns, flest börn og unglingar, voru í sundlauginni þegar eitrunin varð. Allir byrjuðu að hósta og kúgast og loks hné fólk niður, kastaði upp og barðist við talsverð særindi í önundarvegi. Gísli lýsir aðstæðum þannig að þegar björgunaraðilar, þar á meðal hann, komu á staðinn lá fólk eins og hráviði á götunni og þar þurfti að gefa þeim lyf og koma þeim í sjúkraflutning til Neskaupstaðar. Flóðbylgjan á Tælandi Ein átakanlegasta frásögn Gísla er þó af neyðaraðstoðinni sem hann og fleiri Íslendingar veittu sem aðstoð stjórnvalda í kjölfar flóðbylgjanna í Indlandshafi jólin 2004. Flóðbylgjan er ein mannskæðasta náttúruhamfarasaga nútímans en þar létust ríflega átta þúsund manns og tæplega þrjú þúsund manns fundust aldrei. Flóðbylgjan reið verst yfir vesturströnd Taílands þar sem mikið var um ferðamenn í fríum yfir jólin. Þar á meðal Svíar. „Íslensk stjórnvöld sendu út sjúkraflug til aðstoðar og í þeim hópi voru margir sem fólk þekkir vel til í dag,“ segir Gísli Níls og nefnir sem dæmi Ölmu Möller núverandi heilbrigðisráðherra og Víði Reynisson þingmann. „Einn af Svíunum sem ég sinnti var ungur fjölskyldufaðir sem missti konuna sína og ung börn. Þegar flóðbylgjan skall á, sá hann hana koma þar sem hann var inni á hótelherberginu sínu. Fyrir neðan herbergið sá hann börnin sín vera að leika sér á ströndinni,“ segir Gísli og lýsir því þegar faðirinn hljóp niður með hraði til að reyna að koma börnunum sínum til bjargar. Þegar hann reyndi að grípa í þau var um metri á milli þeirra. En allt kom fyrir ekki. Flóðbylgjan skall á þeim öllum og það næsta sem hann vissi var að hann vaknaði upp inni í skógi.“ Þegar maðurinn ætlaði að standa upp, áttaði hann sig á því að hann gat það ekki. „Því fæturnir á honum voru svo illa farnir og skornir því hann hafði auðvitað rekist á svo margt þegar hann barst með flóðbylgjunni inn í skóginn. Alls staðar í kringum manninn sá hann dáið fólk. „Líkin voru meira að segja upp í trjánum fyrir ofan hann.“ Í um sólarhring lá maðurinn þarna, umkringdur líkum og algjörlega varnarlaus þar til honum var bjargað upp á pallbíll af innfæddum sem voru að safna saman líkum. Gísli segir erfitt að lýsa því hvernig það var að upplifa þann sársauka sem fólk varð fyrir á svæðinu. „Þegar flugið okkar lenti í Svíþjóð heyrði maður allt í einu lágvært og máttlaust klapp þeirra Svía sem við vorum að flytja heim. Flestir búnir að missa ástvini og slasaðir,“ segir Gísli og bætir við: „Þegar búið var að tæma vélina og aðeins starfsfólk var eftir, brotnuðum við öll niður, grétum og tókum utan um hvort annað; flugmenn, flugfreyjur, læknar, hjúkrunarfræðingar og fleiri. Þetta var einfaldlega of erfitt.“ Þegar pabbi fór á sjóinn… Árið 2008 réði Gísli sig sem forvarnarfulltrúa hjá VÍS og þar starfaði hann í fjórtán ár. Hlutverk Gísla fól meðal annars í sér að starfa sem ráðgjafi í öryggis- og forvarnarmálum með fyrirtækjum. Fyrsti geirinn sem Gísli einbeitti sér að var sjávarútvegurinn. Enda mörgum hnútum kunnugur í þeim geira. En það er ekki allt. Því Gísli þekkir líka af eigin raun, hvernig upplifun það er að fá símtalið sem allir hræðast. Þegar það er hringt og okkur tilkynnt að ástvinur okkur hafi orðið fyrir alvarlegu slysi. Þetta símtal fékk Gísli 1998. „Ég man enn hvar ég stóð og í hvaða fötum ég var þegar mamma hringdi í mig,“ segir Gísli þegar hann rifjar augnablikið upp. Þegar mamma hans hringdi og tilkynnti honum að pabbi hans hefði lent í alvarlegu slysi úti á sjó. „Það er svona ofsahræðsla sem grípur um mann,“ segir Gísli þegar hann reynir að útskýra hvernig það er að fá svona skelfilegar fréttir. Slysið varð til þess að Einar pabbi Gísla hefur aldrei getað farið á sjó aftur. Með varanlega laskaðan fót og þó ekki nema um fimmtugt þegar slysið varð. „Þetta er væntanlega eitt af því í lífinu sem hafði líka þau áhrif að vilja búa til öryggislausn fyrir sjómenn,“ segir Gísli um aðdraganda þess að fyrirtækið Aldan var stofnað. Sem nú hefur þróað öryggisstjórnunarkerfi og öryggisapp sem um tvö þúsund sjómenn nota, hjá 17 útgerðum og í um sextíu skipum. Gísli segir að eflaust sé ein af skýringunum fyrir því hversu hugleikin öryggismál sjómanna eru honum sé sú að hann hafi alist upp við mikla sjómennsku í fjölskyldunni og að pabbi hans hafi aðeins um fimmtugt slasast það alvarlega á sjó að hann hefur aldrei getað farið á sjóinn aftur. Ölduappið er öryggislausn sem er þróuð með sjómönnum. Aldan og miðlífskrísan Þegar Gísli sagði upp hjá VÍS vissi hann ekkert hvað hann ætlaði að gera. „Þetta var svona miðlífskrísa. Ég að verða fimmtugur,“ segir Gísli og skellihlær. Gísli stofnaði þó ráðgjafafyrirtækið Öryggisstjórnun og fór að vinna að öryggismálum fyrir útgerðir. Og nánast á augabragði var hann kominn í 3 ára langtíma öryggisvegferð með þremur útgerðum, Vísir hf., Skinney-Þinganes og Gjögur, að ekki var annað í stöðunni en að huga að framtíðar öryggislausnum fyrir sjómenn. „Eitt af því sem ég hafði tekið eftir var að öryggismál sjómanna voru mest á pappír og eins gátu þau verið afar mismunandi, þetta fór svolítið eftir skipstjórum og útgerðum. Æfingar í öryggismálum voru ósamræmdar og mismiklar þannig að ég fór snemma að hugsa um það að þetta þyrfti helst að verða sjálfbærara.“ Og það var í þessum vangaveltum sem Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri hjá Vísi í Grindavík, sagði við Gísla að hann þyrfti auðvitað bara að fara á sjóinn og átta sig betur á því þar, hvers konar lausnir og forvarnir væru líklegastar til að virka. „Ég sá fyrir mér að gera þetta þannig að vinna bara með strákunum en á milli vakta, myndi ég setjast niður með þeim og ræða öryggismálin,“ segir Gísli og hlær. Því það gekk svo sannarlega ekki eftir. „Ég hafði aldrei verið á línubát áður en þegar maður fer á línu, er vinnan þannig að þú einfaldlega vinnur stanslaust í átta klukkutíma, sefur, vaknar og ferð að vinna á ný.“ Að sitja og spjalla um öryggismálin á milli vakta var því ekki beint það sem gerðist þegar út á sjóinn var komið. „En ég tók þó eftir einu,“ segir Gísli nokkuð íbygginn á svip. Það sem var athyglisvert var að í þau skipti sem menn tóku sér smá pásur, settust þeir niður og gerðu allir það sama: Þeir fóru í símann.“ Gísli áttaði sig á því þegar hann fór á sjóinn til að ræða öryggismálin við sjómenn að það var eitt sem þeir gerðu allir þegar þeir tóku pásur: Þeir fóru í símann! Að útfæra öryggishugbúnað í símann var því það sem Aldan réðst í að gera og núna nota ríflega 2000 sjómenn appið. Sjómenn með stóra putta Síðan þetta var, hefur heilmikið gerst. Og allt af þeim toga sem aðilar í nýsköpun þekkja. Þar sem reynir á. Bæði í velgengninni og áskorununum. Sem í senn geta falist í því hvernig er hægt að leysa úr einhverjum málum í tækninni eða hvernig er hægt að fjármagna fyrirtækið þannig að það geti haldið áfram að þróa vöruna, prófa hana áfram og vaxa. „Það sem skipti öllu máli hjá okkur er að Aldan var þróað í eitt ár með um 700 sjómönnum og níu útgerðum. Öldu öryggisstjórnunarkerfið fyrir fiskiskip hefði aldrei orðið að veruleika án þeirra,“ segir Gísli. Sem um leið hefur hjálpað til við bæði stór og lítil atriði. ,,Við erum með svo stóra putta, letrið þarf að vera stórt og allt þarf að vera einfalt!“ er dæmi um það sem sjómennirnir sögðu. Það sem tryggði líka að nýsköpun Öldunnar komst í framkvæmd og alla leið í prófanir var að útgerðafyrirtækin Vísirí Grindavík, Gjögur og Skinney-Þinganes voru til í að taka þátt í þróuninni og notendaprófunum. Sem varð til þess að ég fékk símtal frá einni útgerð og var spurður; Gísli, hvernig stendur á því að það er í gangi þróun á öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskip án aðkomu stærsta útgerðarfélags landsins?“ segir Gísli og hlær. Gísli segir það hafa skipt sköpum að sjómenn og útgerðir hafa tekið þátt í þróun Öldu appsins frá upphafi og margir aðilar tengdir sjávarútveginum hafi stutt við bakið á Öldunni sem nýsköpunarfélagi. Sem eins og önnur nýsköpunarfyrirtæki hafa oft farið í gegnum erfiða tíma, þar sem litlu má muna að reksturinn þróunina það út.Vísir/Anton Brink Aldan hefur hlotið ýmsa styrki. Til dæmis frá Siglingaráði, Samgöngustofu, Félagi skipstjórnarmanna, Sjómannasambandi Íslands, nýsköpunarsjóðnum Kría og TM. fleirum. En það hefur oft munað mjóu,“ segir Gísli. Svona eins og gengur og gerist hjá nýsköpunarfélögum. Ég man til dæmis eftir því að einu sinni var allur peningur að verða búinn. Þannig að ég hringdi í þrjúr útgerðarfyrirtæki og spurði hvort þau væru ekki til í að borga okkur fyrir fram fyrir Ölduna sem við værum að þróa. Er ævinlega þakklátur Vinnslustöðinni, Þorbirni og Nesfisk fyrir það.“ Í mars 2024 var Aldan komin í sölu og segir Gísli markmiðið að koma því í notkun hjá um 80-90% útgerða. Það hlutfall er nú 65%. Erlendir aðilar hafa líka sýnt Öldunni áhuga. Allt frá aðilum í Evrópu og í Ameríku. Gísli nefnir þó sérstaklega Grænlendinga og Færeyinga sem samstarfsaðila sem Aldan er þegar farin að vinna eitthvað með. „Á næsta ári er fyrirséð að við munum fara í útrás. Ákvörðunin snýst í raun aðeins um hvaða útrás og hvernig,“ segir Gísli og nefnir um leið að Aldan hafi sótt um vaxtarstyrk hjá Tækniþróunarsjóði en svör muni ekki berast fyrr en í desember. Þá segir Gísli Ölduteymið hafa lært gríðarlega mikið og eflt tengslanet sitt við nýsköpunargeirann á Íslandi með þátttöku í viðskiptahraðlinum Startup SuperNova sem lauk nýlega. Reynslan og endurgjöfin þaðan muni verður án efa stökkpallurinn okkar fyrir komandi útrás. Það er fyrirséð að Aldan er á leið í útrás enda þó nokkur áhugi erlendis frá á appinu. Hér fagnar Ölduteymið í lok Startup SuperNova en stóra spurningin er hvort félagið fái styrkúthlutun frá Tækniþróunarsjóði í desember, sem síðan getur þá haft mikil áhrif á það í hvernig útrás Aldan ræðst í. Að láta gott af sér leiða Lífið utan vinnu er auðvitað líka eitthvað. Því á Reyðarfirði tók Gísli saman við Hildigunni Þráinsdóttur en saman eiga þau börnin Þráinn sem er 18 ára og Elínu Söru sem er 16 ára. Gísli og Hildigunnur slitu samvistum. Sambýliskona Gísla í dag er Inga Lúthersdóttir hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Landspítalanum, sem fyrir átti þrjú uppkomin börn. Gísli viðurkennir að brenna svo mikið fyrir öryggismálum að þau eigi í raun hug hans allan. Enda hefur hann komið að þeim á fleiri vígstöðvum en hér hafa verið nefnd. Sem dæmi hefur Gísli tekið virkan þátt í að styðja við öryggismálin hjá útgerðinni Vísi í Grindavík. „Það var einmitt svo skrýtið að um tíu dögum áður en Grindavík var rýmd, hringir Pétur framkvæmdastjóri í mig og segir: Gísli, nú held ég að við ættum að fara yfir allar öryggisáætlanir okkar. Svona eins og hann hafi nánast fundið á sér að nú væri eitthvað að fara að gerast,“ segir Gísli, lyftir brúnum en bætir síðan við: „Ég dáist af þrautseigju og seiglu Grindvíkinga. Og er stoltur af því að hafa unnið með þeim og öðrum viðbragðsaðilum að því að tryggja öryggi fólks í þeim nýja veruleika sem við þeim blasir.“ Horfandi yfir framann og söguna fram til þessa, segist Gísli líka sannfærður um að allt á endanum tengist. Eitt leiðir af öðru og samanlagt endar reynslan á því að leiða þig á einhvern stað. Sem þú upplifir síðan sem þinn réttasta stað. „Að vera í nýsköpun er til dæmis rosaleg óreiða. Því allt byrjar þetta sem einhver hugmynd sem fæðist, síðan þarf hún að raungerast og til þess að svo verði, þarftu að fara í gegnum öldurót af alls konar,“ segir Gísli og tekur fram að eflaust flokkist hann ekkert endilega undir að vera þessi hefðundni tæknisinnaði frumkvöðull heldur aðili sem sér þörfina fyrir að efla öryggismál sjómanna. Gísli segist aldrei hafa velt fyrir sér að fara erlendis aftur. Né hafi hann séð eftir því að ganga ekki í breska herinn heldur koma heim. „Ég held reyndar að ég hafi alltaf fyrst og fremst verið upptekin í nú-inu. Fer alltaf alla leið í því sem ég er að fást við hverja stundina og þess vegna er það þannig að Aldan er það sem á hug minn allan núna,“ segir Gísli. Gísli hefur starfað við öryggismál í um aldarfjórðung. Og segist reyndar telja að það viðhorf sem hann ólst upp í eigi þar hlut í máli: Að það skipti svo miklu að láta gott af sér leiða. Að gera öryggismál sjómanna sjálfbær á hug hans allan í dag.Vísir/Anton Brink Horfandi yfir farinn veg segir Gísli þó hugsi. En ég er alinn upp við það að reyna alltaf að láta gott af mér leiða. Mögulega er það því svolítið í DNA-inu mínu. Þannig að mér hefur alltaf þótt það góð tilfinning að vita að það sem ég er að gera eða vinna við, geti haft bein áhrif á öryggi fólks.“ Helgarviðtal Bosnía og Hersegóvína Taíland Náttúruhamfarir Sjávarútvegur Nýsköpun Tækni Tengdar fréttir „Abbababb, ertu stelpa í fótbolta?“ Þegar Bryndís Valsdóttir, heimspekingur, kennari og fyrrum landsliðskona í knattspyrnu og atvinnumanneskja erlendis er spurð um æskuna, nefnir hún skólagönguna fyrst og fremst. 12. október 2025 07:00 Hringdi í mömmu sem sagði einfaldlega: „Nói, nú kemur þú heim“ Það virðist einhvern veginn mótsagnarkennt að ræða mygluveikindi við ungan, hraustan og jákvæðan mann. Og þó… 5. október 2025 08:00 Pabbi fyrir tvítugt, ekkill þrítugur, afi um fertugt og veltir rúmum milljarði „Þetta er erfiðasta hjónaband sem ég hef verið í,“ segir Sigurður Kristinn Lárusson framkvæmdastjóri skellihlæjandi þegar hann lýsir frábæru sambandi sínu við meðeiganda sinn í Stálvík, Jón Trausta Sverrisson. 7. september 2025 08:00 Öðruvísi líf: „Veistu Hrund, þú ert eiginlega eins og Forrest Gump“ Það er eitthvað svo ævintýralegt við að taka spjallið við Hrund Gunnsteinsdóttur. Stundum eins og verið sé að tala um handrit að einhverri bíómynd. Því já; Þannig virðist líf Hrundar hafa verið. 22. júní 2025 08:02 Öðruvísi líf: „Hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar“ „Það var Egyptaland sem skilaði mér heim í dálítilli rúst. Ég einfaldlega missti trúna á mannkyninu og hef aldrei kært mig um að hafa það eftir sem ég sá og heyrði þar. En get sagt að hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar,“ segir Helena Jónsdóttir þegar hún rifjar upp tímann sem hún starfaði með Læknum án landamæra í Egyptalandi. 8. desember 2024 08:02 Mest lesið Öðruvísi líf: „Þar var konum og börnum stillt upp og þau skotin“ Áskorun Sam Rivers úr Limp Bizkit látinn Lífið Dýri kveður Íþróttaálfinn eftir tuttugu ár Lífið Krakkatían: IKEA-geitin, októberfest og reikistjarna Lífið Tveir skiptu með sér sjöfalda pottinum Lífið „Vinir mínir settu stöðugt út á mig og niðurlægðu mig“ Lífið Heiðrar minningu vinar síns með því að elta draumana Lífið Fjórir á lista Páls hættir við Lífið Fjögur hundruð milljónir króna í skjalatösku í Hveragerði Lífið „Bíður bara inni í skáp eftir brúðkaupinu“ Tíska og hönnun Fleiri fréttir Öðruvísi líf: „Þar var konum og börnum stillt upp og þau skotin“ „Abbababb, ertu stelpa í fótbolta?“ Hringdi í mömmu sem sagði einfaldlega: „Nói, nú kemur þú heim“ Fullkomnunarárátta: Óánægð með okkur eða aðra, klárum ekki, sköpum togstreitu og fleira 50+: Að sleppa takinu af krökkunum þegar þau eru flutt að heiman Hjónaskilnaðir: „Þrjár leiðir færar til að semja um lífeyrisréttindi“ Pabbi fyrir tvítugt, ekkill þrítugur, afi um fertugt og veltir rúmum milljarði Sjá meira
Til dæmis þegar Gísli Níls segir frá manni sem hann aðstoðaði eftir flóðin í Taílandi jólin 2004; mann sem missti alla fjölskyldu sína. „Þegar hann teygði sig í áttina að börnunum var svona metri á milli þeirra,“ segir Gísli og viðurkennir að verða hálf meyr þegar hann rifjar upp söguna. Kaldur hrollur fer líka um mann þegar Gísli lýsir holóttum veggi með gamalli blóðslikju á hópslysasjúkrahúsi í Bosníu. „Þarna voru framin fjöldamorð.“ Í samtalinu er líka oft hlegið. Til dæmis þegar Gísli segir frá því þegar hermenn heilsuðu honum fyrst að hermannasið í Bretlandi. Eða þegar hann, sem stofnandi Öldu öryggisstjórnunarkerfi og apps fyrir sjómenn, ræddi hugmyndina við Pétur Hafstein Pálsson, framkvæmdastjóra Vísis í Grindavík og hans helsta hvatningarmann sem sagði: Gísli minn, ef þú ætlar að fara að vinna í öryggismálum fyrir sjómenn þarftu að byrja á því að fara út á sjó.“ Í Áskorun fjöllum við um erfiðu málin en líka allt það jákvæða og góða sem getur byggt okkur upp eða hvatt aðra til dáða. Áskorun fjallar á mannlegan hátt um öll lífsins verkefni. Myndin til hægri er tekin í Ástralíu árið 1990 og segir Gísli að þarna hafi hann setið í eyðimörkinni og velt fyrir sér hvað framtíðin bæri í skauti sér. Sem svo sannarlega hefur verið heilmargt. Til vinstri eru myndir af Gísla heima í Njarðvík að drekka appelsín og borða pulsu. Hvað annað?! Allur í blóði þegar hann sjóaðist Gísli er fæddur 21. desember árið 1972 og ólst upp í Njarðvík. Faðir Gísla er Einar Guðjónsson, sjómaður og svo á við um föðurbræður hans og afa líka. Móðir Gísla er Sigurbjörg Ólafsdóttir afgreiðslukona en bæði eru þau af Reykjanesinu; Sigurbjörg úr Njarðvík en Einar úr Sandgerði. Gísli á eina eldri og eina yngri systur en eins átti hann eldri hálfbróður sem nú er látinn. „Ég var orkumikill, glaðlegur og uppátækjasamur prakkari. Ævintýragjarn og alltaf úti að leika,“ segir Gísli og skælbrosir þegar hann er spurður um æskuna. Fjórtán ára byrjaði Gísli að vinna við fiskvinnslu og sextán ára var hann sendur á sjóinn. „Pabbi sagði þá við mig: Ef þú getur ekki sinnt náminu, er allt eins gott að þú farir á sjóinn og mannist,“ segir Gísli og hlær. Því þegar þetta var hafði hann fallið í flestum fögum í fjölbrautaskólanum; enda lítill áhugi á að sinna náminu. Gísli var hræðilega sjóveikur. Ég ældi svo mikið að sjómennirnir grínuðust með að það skipti litlu þótt lestin væri hálftóm og ekki fiskaðist; ég fyllti lestina upp með ælu!“ Sem segir að kílóin hafi horfið svo hratt að hann nánast leit út eins og tannstöngull. „Haustið sem ég er sextán ára er ég á frystitogara og vakna um miðja nótt allur í blóði. Það sem kom í ljós var að ég var með blóðnasir því skipið valt svo mikið að ég hafði kastast til og frá í kojunni,“ segir Gísli og útskýrir að síðar hafi komið í ljós hönnunargalli í skipinu sem gerði það að verkum að veltingurinn var óeðlilegur. „Ég hélt að skipið væri að sökkva, ekki síst þegar ég kom fram og sá alla þessa reyndu sjómenn, náhvíta í framan ræða björgunarbúninga og björgunarbáta.“ Á miðjum rækjumiðum á milli Íslands og Grænlands, þar sem allir bjuggu sig undir það versta. Betur fór þó á en horfðist. „Ég var svo hræddur að ég sjóaðist við hræðsluna. Hef aldrei orðið sjóveikur eftir þetta.“ Gísli var sendur á sjóinn 16 ára til að mannast. Enda hafði hann þá skítfallið í fjölbrautaskólanum og sýndi náminu engan áhuga. Gísli var sjóveikur allan tímann en ætlaði ekki að láta pabba sinn hafa yfirhöndina heldur þrauka þetta út.Vísir/Anton Brink Það sem Ástralía kenndi Eftir níu mánuði á sjó var Gísli orðinn moldríkur; alltaf úti á sjó og gat engu eytt. „Það varð til þess að ég fékk leyfi foreldra minna til að fara sem skiptinemi til Ástralíu, sem ég greiddi sjálfur fyrir.“ Ástralía kenndi Gísla heilmargt og hafði án efa þau áhrif að í dag er Gísli menntaður hjúkrunarfræðingur, slökkvilið- og sjúkraflutningamaður með meistarapróf í heilbrigðisstjórnun og lýðheilsu og MBA-gráðu. Gísli fór líka í Tryggingaskólann og hefur setið í stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og stuðningsfélagsins Kraftur fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur. Ég þurfti að vera í skólabúning í Ástralíu og þar var aginn mikill. Við ávörpuðum kennara sem herra og frú og ég myndi segja að í Ástralíu hafi ég lært að bera virðingu fyrir skóla og námi.“ Eftir stúdent flutti Gísli á Akureyri og hóf nám í hjúkrunarfræði. „Ég ákvað að læra hjúkrun við Háskólann á Akureyri sem lagði áherslu á að útskrifa dreifbýlishjúkrunarfræðinga sem gætu starfað sjálfsætt án lækna. Því markmiðið var að fara að starfa erlendis hjá Sameinuðu þjóðunum í friðargæslu,“ útskýrir Gísli. Sem með náminu hóf störf hjá slökkviliðinu og í sjúkraflutningum. Sem hann sá fyrir sér að væri góður undirbúningur fyrir vettvangsvinnu erlendis. „Sem rétt var því til dæmis var fyrsta útkallið sem ég fór í með slökkviliðinu banaslys.“ Eftir útskrift úr hjúkrunarnáminu starfaði Gísli á slysa- og bráðadeildinni á Landspítalanum í Fossvogi en réði sig síðan sem hjúkrunarfræðing á sjúkrahúsinu á Siglufirði. Þetta var árið 2002 en þá hafði Gísli líka skráð sig í íslensku friðargæsluna hjá Utanríkisráðuneytinu. Það gengur þannig fyrir sig að í raun veit fólk aldrei hvenær kallið kemur. Gísli samdi því við sjúkrahúsið um að geta farið með stuttum fyrirvara ef þyrfti. „Sem var gott því fljótlega kom í ljós að ég var á leið til Bosníu. Þar sem ég átti að vera vaktstjóri á einni deildinni á hópslysasjúkrahúsi í fjöllunum. Áður en ég fór þangað, þurfti ég hins vegar að klára tveggja mánaða herþjálfun í Bretlandi.“ Reynt að hringja heim frá Ástralíu, á slökkviliðsbílnum á Akureyri þar sem Gísli lærði hjúkrun og nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur. Gísli stefndi snemma að því að fara að starfa erlendis og skráði sig í íslensku friðargæsluna hjá Utanríkisráðuneytinu. „Good morning sir!“ Það er ekki annað hægt en að hlæja þegar Gísli lýsir upphafinu á herþjálfuninni. Því þar sem Gísli átti að vera með mannaforráð á sjúkrahúsinu, fékk hann strax tignina Kapteinn. Síðar varð Gísli reyndar hækkaður í tign, Major hjá breska hernum, en þegar þetta var, lýsir Gísli einu fyndnu atviki svona: „Fyrstu nóttina á herstöðinni svaf ég eiginlega ekkert enda er það svolítið mögnuð upplifun að vera allt í einu komin frá Siglufirði í herþjálfun til Bretlands,“ segir Gísli og bætir við að herþjálfun sé ekkert ólík því sem fólk sér í bíómyndum. Ég þurfti að klæða mig rétt og eftir kúnstarinnar reglum. Húfan þurfti að vera rétt á og merki framan á herjakkann staðfesti tignina mína.“ Íslendingurinn Gísli hafði þó aldrei kynnst neinni stéttaskiptingu. Frekar en nokkur annar Íslendingur. „Ósofinn ákvað ég að klæða mig og fara út í morgungöngu. Kyrrðin varð algjör og þoka yfir og ég hugsaði með mér: Mikið er þetta fallegt.“ Álengdar sá Gísli tvo unga hermenn nálgast. „Þegar þeir voru síðan komnir nánast að mér, snarstoppuðu þeir, smelltu saman hælum og heilsuðu af hermannasið hátt og snjallt: Good morning sir!“ segir Gísli og skellihlær. Mér krossbrá sjálfum. Var engan veginn farinn að átta mig á áhrifunum frá þessari háu tign kafteinsins. Þar sem aðrir í hernum voru einfaldlega þjálfaðir í að heilsa mönnum eins og mér með þessum hætti.“ Manni setur hljóðan að hlusta á Gísla lýsa aðstæðum í Bosníu þar sem hann starfaði á vegum breska hersins á hópslysasjúkrahúsi í fjöllunum. Þar sem fjöldamorð voru framin og enginn lífsneisti sást í augum sumra barna. Sem augljóslega höfðu upplifað skelfileg áföll. Á mynd má sjá starfsmenn sjúkrahússins. Blóðslettur og fjöldamorð Hópslysasjúkrahúsið sem Gísli starfaði á í Bosníu var við lítinn bæ í fjöllunum og þar sem þetta var eftir stríð, segir Gísli eymdina hafa verið mikla. „Atvinnuleysi var yfir 90% og fátæktin mjög mikil. Þegar maður fór í bæinn tók maður alltaf með sér fullt af ávöxtum, súkkulaði og mat til að gefa svöngum börnum. Fyrir þau var þetta eins og gull.“ Gísli segir að þótt stríðinu hafi verið lokið, hafi svo margt í umhverfinu átakanlega minnt á allt það sem á undan hafði gengið. Á sjúkrahúsinu var veggur uppfullur af holum eftir riffilskot. Á veggnum var líka stór rauð blóðslikja föst í steypunni. Því þar var konum og börnum stillt upp og þau skotin. Þarna áttaði maður sig á því hvað grimmdin og heiftin getur verið mikil í heiminum.“ Eitt augnablik situr alltaf eftir í huga Gísla. „Ég gaf lítilli stelpu ávöxt eða súkkulaði og hún var auðvitað ánægð að sjá eins og önnur börn. Nema að þegar ég leit í augun hennar sé ég að þar var enginn lífsneisti. Það var eins og augun væru dáin. Mjög lýsandi fyrir barn sem hefur lent í einhverju skelfilegu áfalli.“ Þó minnist Gísli tímans í Bosníu með hlýjum hug. Rifjar til dæmis upp jólagleði sem starfsmennirnir stóðu fyrir til að gera sér glaðan dag. Þar sem þeir sameinuðu ólíka jólasiði því þarna voru heilbrigðisstarfsmenn frá ólíkum löndum; Hollandi, Kanada, Bretlandi og einn frá Íslandi. Um tíma leysti Gísli af sem æðsti yfirmaður Breta á sjúkrahúsinu í kjölfar stjórnunarvanda á herstöðinni. „Í lok túrsins míns í Bosníu ég hækkaður í tign fyrir að stíga inn í erfiðar aðstæður á sjúkrahúsinu og mér boðið að ganga formlega í breska herinn. En á þeim tímapunkti var seinna Íraksstríðið byrjað og ég hefði því verið sendur þangað. Eftir alvarlega íhugun ákvað ég þó að fara heim. Þá hafði ég verið þarna í tæpt ár í breska hernum..“ Það var erfitt að koma aftur til Íslands og hlusta á fólk jafnvel kvarta undan því að eiga ekki nógu flottan síma. Í samanburði við hörmungarnar í Bosníu fannst Gísla fólk á Íslandi almennt ekki átta sig á því hversu gott það hefði.Vísir/Anton Brink Slysið á Eskifirði Það var ekki auðvelt fyrir Gísla að lenda eftir Bosníudvölina. Það tók mig um hálft ár að jafna mig. Því mér fannst erfitt að koma til Íslands þar sem fólk kvartaði og kveinaði yfir alls kyns hlutum. Jafnvel því að eiga ekki nógu flottan síma. Mér fannst fólk hér ekki skilja hvað það hefði það gott eða hvernig aðstæður væri hjá fólki sem einfaldlega ætti ekkert.“ Gísli byrjaði á því að fara norður á Siglufjörð. En flutti síðan til Reykjavíkur og leysti af sem deildarstjóri á gæsludeildinni í eitt ár en þaðan lág leiðin óvænt til Reyðarfjarðar þar sem hann starfaði í þrjú ár við álversframkvæmdirnar. „Þar starfaði ég sem lykilstarfsmaður öryggisteymis Bechtel sem er yfir aldagamalt byggingarfyrirtæki sem sá um að byggja álverið. Öryggismenning og áherslur sem Bechtel kom með til Íslands var eitthvað sem hafði ekki sést áður á Íslandi og lyfti öryggismálunum á íslenskum vinnumarkaði á hærra plan,“ segir Gísli og nefnir nokkur dæmi. „Til dæmis voru tilviljunarkennd áfengis- og vímuefnapróf framkvæmd tvisvar á dag á starfsmönnum til að athuga áfengi eða vímuefni í blóðinu og sá ég um allar ráðningaskoðanir með öryggissjónarmiðin að leiðarljósi.“ Sem þýddi til dæmis að athuga hvort umsækjandi sem rafvirki væri ekki litblindur, með kraft í báðum höndum til að sinna starfinu sínu, hvort starfsfólk væri nokkuð veikt í baki og ekki með burði fyrir það starf sem það ætti að takast á við og svo framvegis. „Svona ráðningaskoðanir snúast í raun um hvort það sé eitthvað í heilsufarinu eða líkamsástandi fólks sem ógni öryggi þeirra í því starfi sem viðkomandi á að sinna.“ Þótt Gísli væri nú kominn á öruggar slóðir, lenti hann þó í einu stærsta efnaslysi sögunnar á Íslandi. En það var sumarið 2006 þegar stórhættulegt klórgas lagði um sundlaugarbygginguna og yfir glænýja sundlaug á Eskifirði. Um þrjátíu manns, flest börn og unglingar, voru í sundlauginni þegar eitrunin varð. Allir byrjuðu að hósta og kúgast og loks hné fólk niður, kastaði upp og barðist við talsverð særindi í önundarvegi. Gísli lýsir aðstæðum þannig að þegar björgunaraðilar, þar á meðal hann, komu á staðinn lá fólk eins og hráviði á götunni og þar þurfti að gefa þeim lyf og koma þeim í sjúkraflutning til Neskaupstaðar. Flóðbylgjan á Tælandi Ein átakanlegasta frásögn Gísla er þó af neyðaraðstoðinni sem hann og fleiri Íslendingar veittu sem aðstoð stjórnvalda í kjölfar flóðbylgjanna í Indlandshafi jólin 2004. Flóðbylgjan er ein mannskæðasta náttúruhamfarasaga nútímans en þar létust ríflega átta þúsund manns og tæplega þrjú þúsund manns fundust aldrei. Flóðbylgjan reið verst yfir vesturströnd Taílands þar sem mikið var um ferðamenn í fríum yfir jólin. Þar á meðal Svíar. „Íslensk stjórnvöld sendu út sjúkraflug til aðstoðar og í þeim hópi voru margir sem fólk þekkir vel til í dag,“ segir Gísli Níls og nefnir sem dæmi Ölmu Möller núverandi heilbrigðisráðherra og Víði Reynisson þingmann. „Einn af Svíunum sem ég sinnti var ungur fjölskyldufaðir sem missti konuna sína og ung börn. Þegar flóðbylgjan skall á, sá hann hana koma þar sem hann var inni á hótelherberginu sínu. Fyrir neðan herbergið sá hann börnin sín vera að leika sér á ströndinni,“ segir Gísli og lýsir því þegar faðirinn hljóp niður með hraði til að reyna að koma börnunum sínum til bjargar. Þegar hann reyndi að grípa í þau var um metri á milli þeirra. En allt kom fyrir ekki. Flóðbylgjan skall á þeim öllum og það næsta sem hann vissi var að hann vaknaði upp inni í skógi.“ Þegar maðurinn ætlaði að standa upp, áttaði hann sig á því að hann gat það ekki. „Því fæturnir á honum voru svo illa farnir og skornir því hann hafði auðvitað rekist á svo margt þegar hann barst með flóðbylgjunni inn í skóginn. Alls staðar í kringum manninn sá hann dáið fólk. „Líkin voru meira að segja upp í trjánum fyrir ofan hann.“ Í um sólarhring lá maðurinn þarna, umkringdur líkum og algjörlega varnarlaus þar til honum var bjargað upp á pallbíll af innfæddum sem voru að safna saman líkum. Gísli segir erfitt að lýsa því hvernig það var að upplifa þann sársauka sem fólk varð fyrir á svæðinu. „Þegar flugið okkar lenti í Svíþjóð heyrði maður allt í einu lágvært og máttlaust klapp þeirra Svía sem við vorum að flytja heim. Flestir búnir að missa ástvini og slasaðir,“ segir Gísli og bætir við: „Þegar búið var að tæma vélina og aðeins starfsfólk var eftir, brotnuðum við öll niður, grétum og tókum utan um hvort annað; flugmenn, flugfreyjur, læknar, hjúkrunarfræðingar og fleiri. Þetta var einfaldlega of erfitt.“ Þegar pabbi fór á sjóinn… Árið 2008 réði Gísli sig sem forvarnarfulltrúa hjá VÍS og þar starfaði hann í fjórtán ár. Hlutverk Gísla fól meðal annars í sér að starfa sem ráðgjafi í öryggis- og forvarnarmálum með fyrirtækjum. Fyrsti geirinn sem Gísli einbeitti sér að var sjávarútvegurinn. Enda mörgum hnútum kunnugur í þeim geira. En það er ekki allt. Því Gísli þekkir líka af eigin raun, hvernig upplifun það er að fá símtalið sem allir hræðast. Þegar það er hringt og okkur tilkynnt að ástvinur okkur hafi orðið fyrir alvarlegu slysi. Þetta símtal fékk Gísli 1998. „Ég man enn hvar ég stóð og í hvaða fötum ég var þegar mamma hringdi í mig,“ segir Gísli þegar hann rifjar augnablikið upp. Þegar mamma hans hringdi og tilkynnti honum að pabbi hans hefði lent í alvarlegu slysi úti á sjó. „Það er svona ofsahræðsla sem grípur um mann,“ segir Gísli þegar hann reynir að útskýra hvernig það er að fá svona skelfilegar fréttir. Slysið varð til þess að Einar pabbi Gísla hefur aldrei getað farið á sjó aftur. Með varanlega laskaðan fót og þó ekki nema um fimmtugt þegar slysið varð. „Þetta er væntanlega eitt af því í lífinu sem hafði líka þau áhrif að vilja búa til öryggislausn fyrir sjómenn,“ segir Gísli um aðdraganda þess að fyrirtækið Aldan var stofnað. Sem nú hefur þróað öryggisstjórnunarkerfi og öryggisapp sem um tvö þúsund sjómenn nota, hjá 17 útgerðum og í um sextíu skipum. Gísli segir að eflaust sé ein af skýringunum fyrir því hversu hugleikin öryggismál sjómanna eru honum sé sú að hann hafi alist upp við mikla sjómennsku í fjölskyldunni og að pabbi hans hafi aðeins um fimmtugt slasast það alvarlega á sjó að hann hefur aldrei getað farið á sjóinn aftur. Ölduappið er öryggislausn sem er þróuð með sjómönnum. Aldan og miðlífskrísan Þegar Gísli sagði upp hjá VÍS vissi hann ekkert hvað hann ætlaði að gera. „Þetta var svona miðlífskrísa. Ég að verða fimmtugur,“ segir Gísli og skellihlær. Gísli stofnaði þó ráðgjafafyrirtækið Öryggisstjórnun og fór að vinna að öryggismálum fyrir útgerðir. Og nánast á augabragði var hann kominn í 3 ára langtíma öryggisvegferð með þremur útgerðum, Vísir hf., Skinney-Þinganes og Gjögur, að ekki var annað í stöðunni en að huga að framtíðar öryggislausnum fyrir sjómenn. „Eitt af því sem ég hafði tekið eftir var að öryggismál sjómanna voru mest á pappír og eins gátu þau verið afar mismunandi, þetta fór svolítið eftir skipstjórum og útgerðum. Æfingar í öryggismálum voru ósamræmdar og mismiklar þannig að ég fór snemma að hugsa um það að þetta þyrfti helst að verða sjálfbærara.“ Og það var í þessum vangaveltum sem Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri hjá Vísi í Grindavík, sagði við Gísla að hann þyrfti auðvitað bara að fara á sjóinn og átta sig betur á því þar, hvers konar lausnir og forvarnir væru líklegastar til að virka. „Ég sá fyrir mér að gera þetta þannig að vinna bara með strákunum en á milli vakta, myndi ég setjast niður með þeim og ræða öryggismálin,“ segir Gísli og hlær. Því það gekk svo sannarlega ekki eftir. „Ég hafði aldrei verið á línubát áður en þegar maður fer á línu, er vinnan þannig að þú einfaldlega vinnur stanslaust í átta klukkutíma, sefur, vaknar og ferð að vinna á ný.“ Að sitja og spjalla um öryggismálin á milli vakta var því ekki beint það sem gerðist þegar út á sjóinn var komið. „En ég tók þó eftir einu,“ segir Gísli nokkuð íbygginn á svip. Það sem var athyglisvert var að í þau skipti sem menn tóku sér smá pásur, settust þeir niður og gerðu allir það sama: Þeir fóru í símann.“ Gísli áttaði sig á því þegar hann fór á sjóinn til að ræða öryggismálin við sjómenn að það var eitt sem þeir gerðu allir þegar þeir tóku pásur: Þeir fóru í símann! Að útfæra öryggishugbúnað í símann var því það sem Aldan réðst í að gera og núna nota ríflega 2000 sjómenn appið. Sjómenn með stóra putta Síðan þetta var, hefur heilmikið gerst. Og allt af þeim toga sem aðilar í nýsköpun þekkja. Þar sem reynir á. Bæði í velgengninni og áskorununum. Sem í senn geta falist í því hvernig er hægt að leysa úr einhverjum málum í tækninni eða hvernig er hægt að fjármagna fyrirtækið þannig að það geti haldið áfram að þróa vöruna, prófa hana áfram og vaxa. „Það sem skipti öllu máli hjá okkur er að Aldan var þróað í eitt ár með um 700 sjómönnum og níu útgerðum. Öldu öryggisstjórnunarkerfið fyrir fiskiskip hefði aldrei orðið að veruleika án þeirra,“ segir Gísli. Sem um leið hefur hjálpað til við bæði stór og lítil atriði. ,,Við erum með svo stóra putta, letrið þarf að vera stórt og allt þarf að vera einfalt!“ er dæmi um það sem sjómennirnir sögðu. Það sem tryggði líka að nýsköpun Öldunnar komst í framkvæmd og alla leið í prófanir var að útgerðafyrirtækin Vísirí Grindavík, Gjögur og Skinney-Þinganes voru til í að taka þátt í þróuninni og notendaprófunum. Sem varð til þess að ég fékk símtal frá einni útgerð og var spurður; Gísli, hvernig stendur á því að það er í gangi þróun á öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskip án aðkomu stærsta útgerðarfélags landsins?“ segir Gísli og hlær. Gísli segir það hafa skipt sköpum að sjómenn og útgerðir hafa tekið þátt í þróun Öldu appsins frá upphafi og margir aðilar tengdir sjávarútveginum hafi stutt við bakið á Öldunni sem nýsköpunarfélagi. Sem eins og önnur nýsköpunarfyrirtæki hafa oft farið í gegnum erfiða tíma, þar sem litlu má muna að reksturinn þróunina það út.Vísir/Anton Brink Aldan hefur hlotið ýmsa styrki. Til dæmis frá Siglingaráði, Samgöngustofu, Félagi skipstjórnarmanna, Sjómannasambandi Íslands, nýsköpunarsjóðnum Kría og TM. fleirum. En það hefur oft munað mjóu,“ segir Gísli. Svona eins og gengur og gerist hjá nýsköpunarfélögum. Ég man til dæmis eftir því að einu sinni var allur peningur að verða búinn. Þannig að ég hringdi í þrjúr útgerðarfyrirtæki og spurði hvort þau væru ekki til í að borga okkur fyrir fram fyrir Ölduna sem við værum að þróa. Er ævinlega þakklátur Vinnslustöðinni, Þorbirni og Nesfisk fyrir það.“ Í mars 2024 var Aldan komin í sölu og segir Gísli markmiðið að koma því í notkun hjá um 80-90% útgerða. Það hlutfall er nú 65%. Erlendir aðilar hafa líka sýnt Öldunni áhuga. Allt frá aðilum í Evrópu og í Ameríku. Gísli nefnir þó sérstaklega Grænlendinga og Færeyinga sem samstarfsaðila sem Aldan er þegar farin að vinna eitthvað með. „Á næsta ári er fyrirséð að við munum fara í útrás. Ákvörðunin snýst í raun aðeins um hvaða útrás og hvernig,“ segir Gísli og nefnir um leið að Aldan hafi sótt um vaxtarstyrk hjá Tækniþróunarsjóði en svör muni ekki berast fyrr en í desember. Þá segir Gísli Ölduteymið hafa lært gríðarlega mikið og eflt tengslanet sitt við nýsköpunargeirann á Íslandi með þátttöku í viðskiptahraðlinum Startup SuperNova sem lauk nýlega. Reynslan og endurgjöfin þaðan muni verður án efa stökkpallurinn okkar fyrir komandi útrás. Það er fyrirséð að Aldan er á leið í útrás enda þó nokkur áhugi erlendis frá á appinu. Hér fagnar Ölduteymið í lok Startup SuperNova en stóra spurningin er hvort félagið fái styrkúthlutun frá Tækniþróunarsjóði í desember, sem síðan getur þá haft mikil áhrif á það í hvernig útrás Aldan ræðst í. Að láta gott af sér leiða Lífið utan vinnu er auðvitað líka eitthvað. Því á Reyðarfirði tók Gísli saman við Hildigunni Þráinsdóttur en saman eiga þau börnin Þráinn sem er 18 ára og Elínu Söru sem er 16 ára. Gísli og Hildigunnur slitu samvistum. Sambýliskona Gísla í dag er Inga Lúthersdóttir hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Landspítalanum, sem fyrir átti þrjú uppkomin börn. Gísli viðurkennir að brenna svo mikið fyrir öryggismálum að þau eigi í raun hug hans allan. Enda hefur hann komið að þeim á fleiri vígstöðvum en hér hafa verið nefnd. Sem dæmi hefur Gísli tekið virkan þátt í að styðja við öryggismálin hjá útgerðinni Vísi í Grindavík. „Það var einmitt svo skrýtið að um tíu dögum áður en Grindavík var rýmd, hringir Pétur framkvæmdastjóri í mig og segir: Gísli, nú held ég að við ættum að fara yfir allar öryggisáætlanir okkar. Svona eins og hann hafi nánast fundið á sér að nú væri eitthvað að fara að gerast,“ segir Gísli, lyftir brúnum en bætir síðan við: „Ég dáist af þrautseigju og seiglu Grindvíkinga. Og er stoltur af því að hafa unnið með þeim og öðrum viðbragðsaðilum að því að tryggja öryggi fólks í þeim nýja veruleika sem við þeim blasir.“ Horfandi yfir framann og söguna fram til þessa, segist Gísli líka sannfærður um að allt á endanum tengist. Eitt leiðir af öðru og samanlagt endar reynslan á því að leiða þig á einhvern stað. Sem þú upplifir síðan sem þinn réttasta stað. „Að vera í nýsköpun er til dæmis rosaleg óreiða. Því allt byrjar þetta sem einhver hugmynd sem fæðist, síðan þarf hún að raungerast og til þess að svo verði, þarftu að fara í gegnum öldurót af alls konar,“ segir Gísli og tekur fram að eflaust flokkist hann ekkert endilega undir að vera þessi hefðundni tæknisinnaði frumkvöðull heldur aðili sem sér þörfina fyrir að efla öryggismál sjómanna. Gísli segist aldrei hafa velt fyrir sér að fara erlendis aftur. Né hafi hann séð eftir því að ganga ekki í breska herinn heldur koma heim. „Ég held reyndar að ég hafi alltaf fyrst og fremst verið upptekin í nú-inu. Fer alltaf alla leið í því sem ég er að fást við hverja stundina og þess vegna er það þannig að Aldan er það sem á hug minn allan núna,“ segir Gísli. Gísli hefur starfað við öryggismál í um aldarfjórðung. Og segist reyndar telja að það viðhorf sem hann ólst upp í eigi þar hlut í máli: Að það skipti svo miklu að láta gott af sér leiða. Að gera öryggismál sjómanna sjálfbær á hug hans allan í dag.Vísir/Anton Brink Horfandi yfir farinn veg segir Gísli þó hugsi. En ég er alinn upp við það að reyna alltaf að láta gott af mér leiða. Mögulega er það því svolítið í DNA-inu mínu. Þannig að mér hefur alltaf þótt það góð tilfinning að vita að það sem ég er að gera eða vinna við, geti haft bein áhrif á öryggi fólks.“
Helgarviðtal Bosnía og Hersegóvína Taíland Náttúruhamfarir Sjávarútvegur Nýsköpun Tækni Tengdar fréttir „Abbababb, ertu stelpa í fótbolta?“ Þegar Bryndís Valsdóttir, heimspekingur, kennari og fyrrum landsliðskona í knattspyrnu og atvinnumanneskja erlendis er spurð um æskuna, nefnir hún skólagönguna fyrst og fremst. 12. október 2025 07:00 Hringdi í mömmu sem sagði einfaldlega: „Nói, nú kemur þú heim“ Það virðist einhvern veginn mótsagnarkennt að ræða mygluveikindi við ungan, hraustan og jákvæðan mann. Og þó… 5. október 2025 08:00 Pabbi fyrir tvítugt, ekkill þrítugur, afi um fertugt og veltir rúmum milljarði „Þetta er erfiðasta hjónaband sem ég hef verið í,“ segir Sigurður Kristinn Lárusson framkvæmdastjóri skellihlæjandi þegar hann lýsir frábæru sambandi sínu við meðeiganda sinn í Stálvík, Jón Trausta Sverrisson. 7. september 2025 08:00 Öðruvísi líf: „Veistu Hrund, þú ert eiginlega eins og Forrest Gump“ Það er eitthvað svo ævintýralegt við að taka spjallið við Hrund Gunnsteinsdóttur. Stundum eins og verið sé að tala um handrit að einhverri bíómynd. Því já; Þannig virðist líf Hrundar hafa verið. 22. júní 2025 08:02 Öðruvísi líf: „Hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar“ „Það var Egyptaland sem skilaði mér heim í dálítilli rúst. Ég einfaldlega missti trúna á mannkyninu og hef aldrei kært mig um að hafa það eftir sem ég sá og heyrði þar. En get sagt að hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar,“ segir Helena Jónsdóttir þegar hún rifjar upp tímann sem hún starfaði með Læknum án landamæra í Egyptalandi. 8. desember 2024 08:02 Mest lesið Öðruvísi líf: „Þar var konum og börnum stillt upp og þau skotin“ Áskorun Sam Rivers úr Limp Bizkit látinn Lífið Dýri kveður Íþróttaálfinn eftir tuttugu ár Lífið Krakkatían: IKEA-geitin, októberfest og reikistjarna Lífið Tveir skiptu með sér sjöfalda pottinum Lífið „Vinir mínir settu stöðugt út á mig og niðurlægðu mig“ Lífið Heiðrar minningu vinar síns með því að elta draumana Lífið Fjórir á lista Páls hættir við Lífið Fjögur hundruð milljónir króna í skjalatösku í Hveragerði Lífið „Bíður bara inni í skáp eftir brúðkaupinu“ Tíska og hönnun Fleiri fréttir Öðruvísi líf: „Þar var konum og börnum stillt upp og þau skotin“ „Abbababb, ertu stelpa í fótbolta?“ Hringdi í mömmu sem sagði einfaldlega: „Nói, nú kemur þú heim“ Fullkomnunarárátta: Óánægð með okkur eða aðra, klárum ekki, sköpum togstreitu og fleira 50+: Að sleppa takinu af krökkunum þegar þau eru flutt að heiman Hjónaskilnaðir: „Þrjár leiðir færar til að semja um lífeyrisréttindi“ Pabbi fyrir tvítugt, ekkill þrítugur, afi um fertugt og veltir rúmum milljarði Sjá meira
„Abbababb, ertu stelpa í fótbolta?“ Þegar Bryndís Valsdóttir, heimspekingur, kennari og fyrrum landsliðskona í knattspyrnu og atvinnumanneskja erlendis er spurð um æskuna, nefnir hún skólagönguna fyrst og fremst. 12. október 2025 07:00
Hringdi í mömmu sem sagði einfaldlega: „Nói, nú kemur þú heim“ Það virðist einhvern veginn mótsagnarkennt að ræða mygluveikindi við ungan, hraustan og jákvæðan mann. Og þó… 5. október 2025 08:00
Pabbi fyrir tvítugt, ekkill þrítugur, afi um fertugt og veltir rúmum milljarði „Þetta er erfiðasta hjónaband sem ég hef verið í,“ segir Sigurður Kristinn Lárusson framkvæmdastjóri skellihlæjandi þegar hann lýsir frábæru sambandi sínu við meðeiganda sinn í Stálvík, Jón Trausta Sverrisson. 7. september 2025 08:00
Öðruvísi líf: „Veistu Hrund, þú ert eiginlega eins og Forrest Gump“ Það er eitthvað svo ævintýralegt við að taka spjallið við Hrund Gunnsteinsdóttur. Stundum eins og verið sé að tala um handrit að einhverri bíómynd. Því já; Þannig virðist líf Hrundar hafa verið. 22. júní 2025 08:02
Öðruvísi líf: „Hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar“ „Það var Egyptaland sem skilaði mér heim í dálítilli rúst. Ég einfaldlega missti trúna á mannkyninu og hef aldrei kært mig um að hafa það eftir sem ég sá og heyrði þar. En get sagt að hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar,“ segir Helena Jónsdóttir þegar hún rifjar upp tímann sem hún starfaði með Læknum án landamæra í Egyptalandi. 8. desember 2024 08:02