Skoðun

Til­laga um hærri vöru­gjöld á mótor­hjól er skref aftur á bak

Unnar Már Magnússon skrifar

Tillaga stjórnvalda um að hækka vörugjöld á mótorhjól og afnema niðurfellingu á vörugjöldum af keppnistækjum til íþróttaiðkunar er skref í ranga átt. Slík breyting myndi bitna beint á íþróttafólki, fyrirtækjum og samfélögum sem byggja upp mótorsport á Íslandi — og er engan veginn í takt við raunveruleikann.

Mótorhjól eru ekki bílar, og ættu ekki að vera skattlögð eins. Þau eru mun léttari, valda minni vegsliti, taka minna pláss í umferð og menga minna en hefðbundnar bifreiðar. Víða í Evrópu eru mótorhjól hvött sem vistvænni samgöngumáti — en hér á landi virðist stefnt í þveröfuga átt.

Mótorhjólasport er íþrótt, ekki munaður. Keppnistæki eru ekki notuð í almennri umferð heldur á lokuðum brautum og við skipulagt íþróttastarf. Þrátt fyrir það greiða keppendur nú þegar eldsneytisskatt, sem samkvæmt lögum á að renna til viðhalds og uppbyggingar vegakerfisins. Þeir greiða því fyrir vegi sem þeir nota ekki. Að leggja ofan á það hærri vörugjöld væri einfaldlega ósanngjarnt og óskynsamlegt.

Afnám niðurfellinga og hærri skattar munu draga úr þátttöku ungs fólks, veikja íþróttastarf, grafa undan atvinnustarfsemi tengdri mótorsporti og ganga þvert á markmið í loftslags- og samgöngumálum.

Við hvetjum stjórnvöld til að endurhugsa þessa stefnu. Mótorhjól eru hluti af lausninni, ekki vandamálið. Íþróttafólk og fyrirtæki sem byggja upp jákvætt samfélag í kringum mótorsport á ekki að vera skattlögð eins og lúxusnotendur. Það væri skynsamlegra að skapa umhverfi sem styður við þessa íþrótt — ekki að refsa henni.

Höfundur flytur inn Ducati og aprilia mótorhjól, er varaformaður íþóttafélagsins Hafliða í Hafnarfirði og fyrrverandi keppandi í mótorsporti hér heima sem erlendis.




Skoðun

Sjá meira


×