Veður

Norðan­áttin gengur niður

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður um eða yfir frostmarki yfir daginn.
Hiti verður um eða yfir frostmarki yfir daginn. Vísir/Anton

Norðanáttin gengur smám saman niður í dag en má þó búast við allhvössum eða hvössum vindi suðaustanlands fram að hádegi.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði víða bjart veður, en skýjað og dálítil él á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti um eða yfir frostmarki að deginum, en frost um mest allt land í kvöld.

„Í nótt kemur smálægð yfir Vestfirði, hún fer suðaustur yfir land á morgun. Þá verður breytileg átt, yfirleitt gola eða kaldi. Rigning, slydda eða snjókoma um tíma í flestum landshlutum, en hvergi mikil úrkoma. Það hlýnar í bili, hiti kemst væntalega í 5 til 6 stig þar sem best lætur.

Síðdegis á morgun tekur við róleg norðanátt með éljum, en styttir upp suðvestanlands. Kólnar aftur,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Breytileg og síðar norðlæg átt 3-10 m/s. Rigning eða slydda með köflum, en þurrt að mestu suðaustantil. Hiti víða 0 til 6 stig. Kólnar síðdegis með éljum, en styttir upp suðvestanlands.

Á laugardag (fyrsti vetrardagur): Breytileg átt 3-8 og bjart með köflum, hiti um eða undir frostmarki. Suðaustan 5-13 með rigningu eða snjókomu á suðvestanverðu landinu um kvöldið.

Á sunnudag: Norðaustan- og austanátt með rigningu eða slyddu, en snjókomu og vægu frosti á Norðaustur- og Austurlandi.

Á mánudag: Norðaustanátt og él, víða vægt frost.

Á þriðjudag: Norðlæg átt og dálítil él norðanlands, en yfirleitt þurrt sunnan heiða. Heldur kólnandi.

Á miðvikudag: Norðaustanátt og líkur á éljum norðan- og austantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×