Fótbolti

Vinícius Júni­or í­hugar að yfir­gefa Real Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gæti yfirgefið Real strax í janúar.
Gæti yfirgefið Real strax í janúar. EPA/JUANJO MARTIN

Brasilíski vængmaðurinn Vinícius Júnior íhugar nú að yfirgefa stórlið Real Madríd eftir að hafa lent upp á kant við Xabi Alonso, þjálfara liðsins, þegar hann var tekinn af velli í sigrinum á Barcelona um liðna helgi.

Hinn 25 ára gamli Vini Jr. var allt annað en sáttur með að vera tekinn af velli og lét óánægju sína í ljós strax þegar á varamannabekkinn var komið. Spænski miðillinn Diario AS greinir frá að leikmaðurinn gæti reynt að yfirgefa félagið strax í janúar.

Vinícius hefur þrívegis verið skilinn eftir utan byrjunarliðs Real á tímabilinu og þá er hann nær alltaf tekinn af velli á meðan aðrar stórstjörnur liðsins, Kylian Mbappé þar á meðal, spila allan leikinn. Er þetta eitthvað sem Brasilíumaðurinn telur óboðlegt.

Þessi magnaði leikmaður var orðaður við Sádi-Arabíu í sumar og þar slefa menn eflaust yfir tilhugsuninni að fá einn besta leikmann heims í sínar raðir. Alls óvíst er hvaða lið myndi vera svo heppið að hreppa vængmanninn en stærstu lið landsins eru öll undir sama eignarhaldi.

Í 10 deildarleikjum á leiktíðinni hefur Vini Jr. skorað 5 mörk og gefið 4 stoðsendingar. Hann hefur ekki komist á blað í Meistaradeild Evrópu þegar þremur umferðum er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×