Skoðun

Til hamingju Víkingur Heiðar!

Halla Hrund Logadóttir skrifar

Árið 2008 hitti ég Víking Heiðar í fyrsta sinn. Hann tók þátt í tónleikaröð fyrir rísandi stjörnur í klassískri tónlist, en viðburðurinn var hluti af sérstakri menningarhátíð sem ég átti þátt í að undirbúa í Brussel. Þarna birtist þessi hógværi hlýlegi maður og spilaði einstaklega fallega fyrir nokkuð stóran hóp í sal eins helsta menningarhúss Brussel, Palais de Bozar.

Nú, tæpum 18 árum síðar, var ég viðstödd þegar Víkingur Heiðar hlaut verðlaun Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Hann er ekki lengur rísandi stjarna, hans stjarna skín skærar sem aldrei fyrr eins og birtist nú með viðurkenningu Norðurlandaráðs en ekki síður í gullverðlaunum Konunglega fílharmóníufélagsins í London og Grammy verðlaunum; en þetta eru aðeins dæmi um þær mörgu alþjóðlegu viðurkenningar sem Víkingur Heiðar hefur hlotið. Hann fyllir tónleikasali hvar sem er í veröldinni, allt frá Belgíu yfir til Bandaríkjanna og Japan og þúsundir hrífast með.

Saga Víkings Heiðars minnir okkur á mikilvægi tónlistarnáms og aðgengi þess fyrir alla óháð efnahag. Hún minnir okkur líka á þá gjöf sem felst í því að búa í samfélagi þar sem við getum ræktað ólík áhugasvið sem oft eru ekki endilega fjárhagslega arðbær eða örugg leið. Síðast en ekki síst minnir saga Víkings okkur á mikilvægi þess að hafa ástríðu og metnað fyrir því sem við vinnum að.

Í ræðu Víkings Heiðars, sem flutt var af sendiherra Íslands í Svíþjóð þar sem Víkingur Heiðar er við tónleikahald í Bandaríkjunum, kom sérstaklega fram mikið þakklæti til allra þeirra sem hafa hjálpað honum að ná árangri í gegnum tíðina. Með þeim ársngri hefur Víkingur Heiðar svo sannarlega lýst upp íslenskt tónlistarlíf og orðið öðrum hvatning og innblástur.

Til hamingju Víkingur Heiðar. Þú ert þjóðinni til sóma.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Hamona

Benedikt S. Benediktsson skrifar

Sjá meira


×