Innlent

Boða rót­tækar breytingar á byggingarreglugerð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Inga Sæland með sleggju á lofti.
Inga Sæland með sleggju á lofti. Vísir/Bjarni

Ríkisstjórnin kynnti einföldun á regluverki þegar kemur að byggingu húsnæðis á blaðamannafundi þriggja ráðherra og borgarstjóra í Úlfarsárdal. Byggingastjórakerfið verður lagt niður og létt verður verulega á störfum byggingafulltrúa svo eitthvað sé nefnt.

Ríkisstjórnin segir lengi hafa verið kallað eftir breytingum til að auðvelda byggingu húsnæðis á viðráðanlegu verði.

„Ríkisstjórnin hyggst ráðast í stórfellda einföldun á regluverki til að svara þessu kalli – meðal annars með því að einfalda byggingarreglugerð, með skilvirkara byggingareftirliti og með einni gátt fyrir stafræn byggingarleyfi í Mannvirkjaskrá HMS,“ segir í tilkynningu ríkisstjórnarinnar.

Ný byggingarreglugerð verði markmiðsdrifin.

„Gert er ráð fyrir að fyrsti kafli nýrrar reglugerðar verði kynntur á vef HMS í nóvember og að vinnunni ljúki næsta vor. Stefnt er að því að tæknilegar útfærslur fari úr reglugerðinni og þess í stað verði settar fram leiðbeiningar sem unnar eru í samstarfi við fagaðila. Jafnframt verður efnisreglum fækkað til að auðvelda og flýta íbúðauppbyggingu.“

Róttækar breytingar séu fyrirhugaðar á byggingareftirliti.

„Gert er ráð fyrir að byggingarstjórakerfið verði lagt niður og að byggingareftirlit færist frá byggingarfulltrúum sveitarfélaga til fagaðila undir hatti óháðra skoðunarstofa. Með breytingunni yrði létt verulega á störfum byggingarfulltrúa. Þá verði núverandi starfsábyrgðartryggingar aflagðar og sérstök byggingargallatrygging tekin upp í staðinn, að danskri fyrirmynd. Þetta mun auðvelda neytendum að fá úrlausn sinna mála þegar gallar koma í ljós.“

Með stafrænni umsóknargátt HMS verði hægt að sækja um byggingarleyfi hvar sem er á landinu í gegnum netið. Samskipti verði einfölduð og afgreiðslufrestur styttist með aukinni sjálfvirkni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×