Skoðun

Tækni og ung­menni: Hvar liggur á­byrgðin og hvað getum við gert?

Stefán Þorri Helgason skrifar

Á síðustu tveimur áratugum hafa samskiptastílar barna og ungmenna tekið breytingum. Með tilkomu iPhone árið 2007 og útbreiðslu samfélagsmiðla á borð við Facebook, Instagram, Snapchat og TikTok hefur hinn stafræni heimur orðið stærri hluti af okkar daglega lífi og ekki síst ungmenna. Sem sálfræðingur, hef ég velt því mikið fyrir mér hvort regluleg notkun samfélagsmiðla hafi áhrif á samskiptafærni einstaklinga, einkum meðal ungs fólks sem þekkja ekki veruleikann án snjalltækja. Þessi tækni er ekki alslæm, svo víst er það. Í mörgum tilfellum hefur hún verið nýtt til góðs, eins og til að efla tengsl, draga úr félagslegri einangrun, til upplýsingaöflunar eða skemmtunar. Ávinningarnir eru því sannarlega margir.

Umhugsunarefnið sem ég tel af hinu góða er að það eru ákveðin forrit sem margir kannast við úr daglegu lífi, líkt og samfélagsmiðlar, sem ber að hafa varan á, einkum þegar kemur að ungmennum. Því þrátt fyrir falleg einkunnarorð fyrirtækja sem reka þessa miðla er mikilvægt að hafa í huga að umrædd forrit eru sjaldan hönnuð af hjálparsamtökum eða í þágu almannaheillar. Staðreyndin er nefnilega sú að rekja má rætur samfélagsmiðla til afar stórs og arðbærs iðnaðs sem veltir mörg hundruð milljörðum dollara á ári. Hagsmunirnir fyrirtækjanna eru því miklir og byggir rekstrarlíkan þeirra að stórum hluta á því að hámarka þátttöku, athygli og viðveru notenda, sem er meðal annars gert með að nýta þekkingu úr sálfræði og taugavísindum, þar sem kerfi eru hönnuð til að halda notendum virkum í sem lengstan tíma (Montag & Hegelich, 2020).

Sú staðreynd ein og sér kallar á að samfélagið staldri aðeins við og íhugi áhrifin af slíkri tækni til skemmri og lengri tíma, sérstaklega fyrir ungt fólk sem eru að taka sín fyrstu skref í lífinu. Mikilvægt er að ræða tækifærin og áskoranirnar sem felast í þessari þróun með gagnrýndum og upplýstum hætti, því þessi tækni er komin til að vera, svo mikið er víst.

Áhrif samfélagsmiðla á félags- og tilfinningafærni

Rannsóknir hafa sýnt að snjalltæki og samfélagsmiðlar geti veitt mikla örvun án þess að einstaklingurinn verði þess var þar sem að efnið flæðir stöðugt til notandans án fyrirhafnar. Með tímanum þróast síðan hraðvirkt umbunarkerfi, sem byggir á reikniriti (e. algorithm) sem stöðugt aðlagast hegðun og viðbrögðum notandans sem stuðlar að aukinni og tíðari notkun, því kerfið birtir efni sem vekur áhuga hjá viðkomandi.

Rannsóknir hafa sýnt að fyrrnefnd örvun geti haft áhrif á hvernig heili barna og ungmenna þroskast. Framheilinn, sá hluti heilans sem tengist m.a. athygli, sjálfs- og tilfinningastjórnun, nær ekki fullum þroska fyrr en upp úr tvítugu en það er hins vegar á unglings- og snemma á fullorðinsárunum þar sem mest allur taugafræðilegur þroski á sér stað. Það gerir ungan heila viðkvæmari (næmari) fyrir áhrifum umhverfisins, þar sem heilinn er stöðugt að læra, þroskast og mynda taugatengingar út frá því áreiti sem hann verður fyrir. Það getur þýtt að ef börn og ungmenni venjast því að fá stöðuga umbun á skömmum tíma með því að renna fingri yfir skjá, getur það haft áhrif á getu þeirra til að taka þátt í aðstæðum sem krefjast einbeitingar, hlustunar og augnsambands.

Það þýðir ekki endilega að tæknin sé skaðleg, heldur frekar að stýrt umhverfi samfélagsmiðla geti haft áhrif á þroskaferla sem tengjast félagsfærni og sjálfstjórn. Að sama skapi hafa rannsóknir sýnt tæknin geti haft jákvæð áhrif og þar með aukið félagsleg tækifæri og upplýsingamiðlun. Það er því mikilvægt að nálgast þetta viðfangsefni með jafnvægi í huga og velta fyrir því frekar fyrir sér hvernig tíðni, innihald og notkun miðla almennt geti haft áhrif á þróun félags- og tilfinningafærni ungmenna.

Sjálfsmynd á stafrænum vettvangi

Samfélagsmiðlar eru hannaðir með það markmið að hafa áhrif á hegðun notenda og halda þeim virkum. Fylgjendafjöldi, „Læk“ og önnur form endurgjafar getur átt það til að skapa mælanlegt kerfi fyrir vinsældum, sem getur haft áhrif á sjálfsmynd einstaklinga og ekki síst hjá ungmennum.

Á unglingsárum mótast sjálfsmyndin og hafa rannsóknir sýnt að endurgjöf á samfélagsmiðlum geti orðið mikilvægur þáttur í mati ungmenna á eigin virði og félagslegri stöðu. Þetta getur aukið næmni fyrir félagslegum samanburði og samþykki meðal annarra, sem hefur gjarnan verið tengt við aukna vanlíðan, kvíða og depurð. Þessi félagslega samkeppnisumgjörð getur leitt til þess að sjálfsmyndin þróist líkt og vörumerki gerir, þar sem áherslan beinist fremur að viðbrögðum og samþykki annarra frekar en því sem viðkomandi þykir mikilvægt. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að mótun sjálfsmyndar er grundvallarþáttur í félagslegum og tilfinningalegum þroska.

Áhrif samfélagsmiðla á sjálfsmynd eru þó ekki einungis neikvæð, því í mörgum tilfellum hefur vettvangur þessi skapað uppbyggileg félagsleg tækifæri eins og aukin tengsl við jafningja eða aðra hópa. Áhrifin ráðast því að miklu leyti af samhengi og notkunarmynstri.

Tæknin og samskipti innan fjölskyldunnar

Tæknin hefur ekki einungis áhrif á samskipti meðal jafnaldra, heldur einnig innan fjölskyldunnar. Þegar foreldrar og börn eru stöðugt tengd við snjalltæki, getur það dregið úr gæðatíma/samverustundum þar sem samveran og athyglin er án truflana. Rannsóknir hafa sýnt að jafnvel nærvera snjalltækja, svo sem að hafa símann á borðinu eða í samverustundum, geti haft neikvæð áhrif á dýpt samtala, tengsl og nánd.Félagsfærni barna þróast að stórum hluta í gegnum samskipti við fullorðna og er hlustun, gagnvirk viðbrögð og athygli lykilþættir í þeirri færni. Ef þessi samskipti veikjast eða rofna vegna truflana frá tækjum, getur það haft áhrif á félagslegan og tilfinningalegan þroska barna. Slík áhrif eru ekki aðeins bundin við skjátíma barna, heldur einnig við notkun foreldra, þar sem börn læra félagsleg viðmið í gegnum athuganir á öðrum. Þetta snýst ekki um að fordæma foreldra eða tæknina í sjálfu sér, heldur undirstrikar að það er staður og stund fyrir allt saman. Markviss notkun og skýr mörk geta skapað rými fyrir samveru- og gæðastundum án truflana, sem er lykilþáttur í tengslamyndun og félagsfærni ungmenna.

Neteinelti, ósýnilegur vettvangur en blessun fyrir suma

Einelti hefur tekið á sig nýjar myndir á stafrænum vettvangi. Samskiptaforrit eins og Snapchat og WhatsApp gerir notendum kleift að senda skilaboð sem hverfa eftir ákveðinn tíma, sem getur skapað tækifæri á óæskilegri hegðun barna ef þau eru ekki undir eftirliti.

Það er þó líka önnur hlið. Fyrir ákveðna hópa hafa margir miðlar reynst mikil blessun. Einstaklingar sem eru jaðarsettir og/eða félagslega einangraðir, finna oft kærkominn vettvang á netinu þar sem þeir fá að tengst öðrum á eigin forsendum. Þar geta samskipti átt sér stað án óþæginda sem geta fylgt félagslegum aðstæðum sem mörgum þykir krefjandi. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að mætt sé hugsanlegum áhrifaþáttum samfélagsmiðla af nærgætni þar sem sama tækni getur bæði reynst áhættu- og verndandi þáttur, eftir samhengi.

Hvað virkar og hvað ekki

Boð og bönn virka sjaldan til lengri tíma. Rannsóknir hafa sýnt að áhrifaríkara sé að skapa traust og gott samband, sem og jafnvægi um meðvitaða notkun. Leiðirnar til þess eru nokkrar:

  • Tímasetningar og reglur: Skýr mörk um skjátíma, sérstaklega á kvöldin, bætir svefn og einbeitingu.
  • Gæðastundir: Óskipt athygli, samtöl og samverustundir án truflun tækja styrkja tengslin og félagsfærni.
  • Opið samtal: Samtöl um; upplifun barna á raun- og starfrænum heimi, pressu og vináttu eykur seiglu og traust tengsl.
  • Fræðsla: Skólar og foreldrar þurfa að kenna stafrænt læsi, ekki bara tæknilega færni heldur siðferðis- og félagslega ábyrgð á miðlunum.

Tæknin er ekki á förum en fylgir þó ábyrgð

Á undanförnum árum hefur tæknin haft veruleg áhrif á samskipti, sjálfsmynd og félagslegan þroska ungmenna og fyrir mörgum er það áhyggjuefni. Rannsóknir sýna að samfélagsmiðlar geta styrkt fjölskyldu- og félagsleg tengsl, sem og aukið aðgengi að upplýsingum. Hin hliðin er sú að slíkir miðlar geta einnig haft neikvæð áhrif á athygli, félags- og tilfinningastjórnun, sjálfsmynd og fjölskyldutengsl. Áhrifin ráðast þó að miklu leyti af samhengi, tímanum sem er varið á samélagsmiðlum og öðrum öðrum þáttum. Rannsóknirsýna aðjafnvægi, fræðsla og meðvituð nálgun skili betri árangri fremur en boð og bönn.

Mikilvægt er að hafa í huga að ábyrgðin liggur ekki hjá börnum einum heldur samfélaginu öllu: Foreldrum, skólasamfélaginu og öðru fagfólki. Með því að efla stafrænt læsi, setja skýr mörk og skapa rými fyrir samveru- og gæðastundum má nýta þessa tækni sem styrkjandi afl fremur en veikjandi hlekk. Þetta er ekki verkefni einstakra fjölskyldna heldur sameiginlegt samfélagslegt verkefni. Stjórnvöld, foreldrar, skólar og aðrar fagstéttir þurfa að vinna saman að því að móta stafrænt umhverfi sem verndar, styrkir og eflir komandi kynslóðir þvítækni þessi er komin til að vera, svo mikið er víst.

Höfundur er sálfræðingur hjá Litlu Kvíðameðferðarstöðinni.


Heimilidaskrá

Montag, C., & Hegelich, S. (2020). Understanding detrimental aspects of social media use: Will the real culprits please stand up?Frontiers in Sociology, 5, 599270. https://doi.org/10.3389/fsoc.2020.599270




Skoðun

Sjá meira


×