Innlent

Georgíumaður hafi kvænst Letta til þess að fá dvalar­leyfi

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjaness mun dæma í málinu.
Héraðsdómur Reykjaness mun dæma í málinu. Vísir/Vilhelm

Georgíumaður hefur verið ákærður fyrir brot gegn lögum um útlendinga, með því að hafa kvænst lettneskri konu í Georgíu, í þeim tilgangi einum að afla sér dvalarleyfis og atvinnuleyfis á Íslandi á grundvelli hjúskapar. Þriðji maður er ákærður fyrir að hafa komið hjúskapnum í kring.

Þetta kemur fram í fyrirkalli og ákæru á hendur Georgíumanninu, sem birt var í Lögbirtingablaðinu í dag. Það er gert þegar ekki tekst að birta mönnum ákæru með hefðbundnum hætti.

Þar segir að Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gjöri kunnugt að höfða beri sakamál á hendur Georgíumanninum, sem sé 39 ára, og lettneskum manni, sem sé 26 ára, fyrir brot gegn lögum um útlendinga.

Georgíumaðurinn hafi þann 28. mars 2024, í Georgíu, gengið í hjúskap með tvítugri konu, ríkisborgara Lettlands, einungis í þeim tilgangi að reyna að afla sér dvalarleyfis og atvinnuleyfis á Íslandi á grundvelli hjúskapar. Maðurinn og konan hafi komið til landsins þann 30. mars 2024 og hann hefði veitt henni loforð um greiðslu þegar hann fengi dvalarleyfi hér á landi. 

Þriðji maðurinn, sem sé Letti, sæti ákæru fyrir hlutdeild í broti gegn lögum um útlendinga, með því að hafa á tímabilinu frá 1. febrúar 2024 til 30. mars 2024, veitt Georgíumanninum liðsinni við framningu brots hans, bæði í orði og verki. 

Hann hafi haft milligöngu um og sannfært konuna um að fallast á að ganga í hjúskap með Georgíumanninum, auk þess sem hann hafi ferðast með hjónunum til Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×