Erlent

Hyggjast banna klám sem sýnir kyrkingar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Breska þingið hyggur á lagasetningu gegn kyrkingum.
Breska þingið hyggur á lagasetningu gegn kyrkingum. Getty

Stjórnvöld á Bretlandseyjum hafa lagt fram frumvarp sem bannar klám sem sýnir kyrkingar og aðrar köfnunaraðferðir. Þá verður stjórnendum klámsíða gert að tryggja að klám af þessu tagi komi ekki fyrir augu breskra notenda síðanna.

Lagasetningin kemur á hæla rannsóknarskýrslu þar sem sagði meðal annars að útbreiðsla kláms þar sem kyrkingar væru sýndar hefðu stuðlað að því að normalísera kyrkingar sem kynlífsathöfn.

Fram kemur í umfjöllun Guardian að rannsóknir hafi sýnt að þrátt fyrir að margir telji að stunda megi kyrkingar á „öruggan hátt“, sem sumir segja auka ánægju sína af kynlífi, þá sé það í raun rangt.

Allar kyrkingar séu áhættusamar og að jafnvel afar skammvinnur súrefnisskortur geti stuðlað að breytingum á heilanum. Margar rannsóknir hafi sýnt fram á breytingar og skaða á heilum kvenna sem hafa verið kyrktar á meðan kynlífi stendur.

Konur eru oftar en ekki sá aðili sem er kyrktur.

Þessi hætta af völdum kyrkinga hefur þegar orðið til þess að þær hafa verið gerðar ólöglegar í lögum gegn heimilisofbeldi frá 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×