Innlent

Gæslu­varð­haldi aftur hafnað í hundraða milljóna bankamáli

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Málið uppgötvaðist hjá Landsbankanum á föstudag.
Málið uppgötvaðist hjá Landsbankanum á föstudag. Vísir/Anton Brink

Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms og hafnað beiðni lögreglu um gæsluvarðhald yfir mönnunum fimm sem grunaðir eru um að hafa stolið hundruðum milljóna af íslenskum bönkum.

Þetta herma heimildir fréttastofu. Greint var frá því á Vísi í gær að lögregla hafi nú til rannsóknar fjársvik upp á um fjögur hundruð milljónir króna af íslensku bönkunum. Fimm eru í farbanni vegna málsins en einstaklingunum tókst að millifæra háar upphæðir af eigin reikningum án þess að inneign væri til staðar vegna galla hjá Reiknistofu bankanna.

Málið uppgötvaðist hjá Landsbankanum á föstudaginn en það rataði á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á laugardaginn. Agnes Ósk Marzellíusardóttir lögreglufulltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu sagði í kvöldfréttum Sýnar í gærkvöldi að enn væri margt á huldu vegna málsins. Það væri óvenjulegt og umfangsmikið.

„Þetta eru um fjögur hundruð milljónir en ég er ekki með það nákvæmlega hversu há þessi upphæð er, en hún er í formi bifreiða, þetta er í formi rafmynta og svo að sjálfsögðu bara reiðufé.“

Ekki sé útilokað á þessari stundu að jafnvel sé um enn hærri fjárhæðir að ræða. Agnes sagði töluverða vinnu framundan hjá lögreglu og mikilvægt hafi verið að kæra úrskurð héraðsdóms.


Tengdar fréttir

Stálu hundruðum milljóna hjá Landsbankanum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar fjársvik upp á um fjögur hundruð milljónir af íslensku bönkunum. Einstaklingum tókst að millifæra háar upphæðum af eigin reikningum án þess að inneign væri til staðar vegna galla hjá Reiknistofu bankanna. Fimm sæta farbanni grunaðir um aðild að málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×