Veður

Þurrt um vestan­vert landið en dá­lítil úr­koma austan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu núll til sjö stig.
Hiti á landinu verður á bilinu núll til sjö stig. Vísir/Vilhelm

Eins og undanfarna daga beinir hæð yfir Grænlandi og lægðasvæði suður í hafi austan- og norðaustanátt til landsins þar sem víða verður fimm til þrettán metrar á sekúndu, en tíu til átján syðst á landinu.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði skýjað austanlands og dálítil rigning eða slydda, en þurrt um landið vestanvert og bjart með köflum.

Hiti verður á bilinu núll til sjö stig.

Keimlíkt veður á morgun, en bætir í vind norðvestantil á landinu og hlýnar heldur.

Á sunnudag er svo útlit fyrir áframhaldandi austan- og norðaustanátt, víða 5-13 m/s, en allhvasst eða hvasst allra syðst. Rigning eða slydda með köflum austantil, og einhver væta við suðurströndina, en yfirleitt þurrt á Norðvestur- og Vesturlandi.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Norðaustan og austan 5-13 m/s, en 13-18 norðvestantil og allra syðst. Rigning með köflum austanlands, en víða þurrt og bjart um landið vestanvert. Hiti 2 til 9 stig, mildast á Suðvesturlandi.

Á sunnudag: Norðaustan og austan 5-15, en 13-20 við suðausturströndina. Væta með köflum, en yfirleitt þurrt á Norðvestur- og Vesturlandi. Hiti breytist lítið.

Á mánudag: Norðaustan 8-18, hvassast suðaustantil. Él eða slydduél á Norður- og Austurlandi, annars þurrt að mestu. Kólnar í veðri.

Á þriðjudag og miðvikudag: Norðaustan og norðan 8-13 og él, en þurrt á Suður- og Vesturlandi. Frost 0 til 7 stig.

Á fimmtudag: Norðlæg eða breytileg átt og úrkomulítið. Svalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×