Erlent

Kín­verjar menga mest en standa sig samt best

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Kínverjar hafa bætt verulega við framleiðslugetu sína á hreinni orku. 
Kínverjar hafa bætt verulega við framleiðslugetu sína á hreinni orku.  AP Photo/Ng Han Guan, File

Síðustu átján mánuði hefur Kínverjum tekist að halda í horfinu eða jafnvel draga úr þegar kemur að útblæstri koltvísýrings í landinu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Guardian fjallar um og er sögð vekja vonir um að Kínverjum, sem eru þó mest mengandi þjóð heims, sé að takast að draga úr losuninni, fyrr en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Miklar framfarir hafa orðið í landinu þegar kemur að vind- og sólarorku. Á síðasta ársfjórðungi þessa árs hefur orðið 46 prósenta aukning í raforkuframleiðslu með sólarorku og 11 prósenta aukning í vindorkunni. Sú aukning gerði það að verkum að útblástur koltvísýrings jókst ekkert á tímabilinu þrátt fyrir aukna raforkuþörf.

Á fyrstu níu mánuðum þessa árs hafa Kínverjar bætt við sólarorkuverum sem geta framleitt 240 gígavött af raforku og vindorkuverum sem hafa framleiðslugetu sem nemur 616 gígavöttum.

Á síðasta ári gerðu Kínverjar síðan enn betur þegar kemur að sólarorkuverum og juku raforkuframleiðslugetuna um heil 333 gígavött, sem var meira en öll önnur ríki heims gerðu til samans.

Gögnin sem um ræðir koma frá Centre for Research on Energy and Clean Air, eða Crea og sýna að útblástur koltvísýríngs í Kína á þriðja ársfjórðungi var sá sami og á sama tímabili í fyrra. Skýrslan er gefin út í tilefni af COP30 loftslagsráðstefnunni í Brasilíu sem nú er hafin. Stærstu ríki heims, utan Kína, hafa verið gagnrýnd fyrir dvínandi áhuga á þessum málum síðustu misserin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×