Fótbolti

„Ætla ekki að horfa oft á seinni hálf­leikinn til að skemmta mér“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson var ánægðari með fyrri hálfleikinn gegn Aserbaísjan en þann seinni.
Arnar Gunnlaugsson var ánægðari með fyrri hálfleikinn gegn Aserbaísjan en þann seinni. vísir/anton

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, var sáttur eftir sigurinn á Aserbaísjan í Bakú í undankeppni HM 2026 í kvöld. Íslendingar mæta Úkraínumönnum í úrslitaleik um sæti í umspili á heimsmeistaramótinu á sunnudaginn.

„Mér líður mjög vel. Þetta var mjög erfiður leikur. Fyrri hálfleikur var fagmannlegur og vel spilaður af okkar hálfu en í seinni hálfleik hafði ég það á tilfinningunni að menn vildu ekki meiðast,“ sagði Arnar við Val Pál Eiríksson eftir leikinn í kvöld.

Klippa: Viðtal við Arnar Gunnlaugsson

„Við vorum á svona 95 prósent ákefð og í alþjóðlegum fótbolta er það munur sem skiptir máli. Mér fannst Aserbaísjan ekki fá neitt dauðafæri en það var meiri orka í þeim í seinni hálfleik. Það var eins og þeir hefðu tekið sig saman í andlitinu í seinni hálfleik og ákveðið að gefa allt í þetta. Við vorum svolítið sljóir en við héldum hreinum, unnum 2-0 sigur og við hljótum að vera sáttir með það.“

En fannst Arnari leikáætlunin ganga vel upp í kvöld?

„Mér fannst fyrri hálfleikur mjög flottur. Við vorum með góða stjórn, það var flottur hreyfanleiki á liðinu, við vorum fljótir að þreyta þá og nýttum okkar sóknir vel. Þótt við hefðum ekki skapað mikið létum við boltann vinna vel fyrir okkur, fundum góð svæði og mér fannst bara tímaspursmál hvenær við myndum skora,“ svaraði Arnar.

„Þessi 2-0 forysta er alltaf snúin. Það er alltaf spurning um þriðja markið og halda einbeitingunni. Mér fannst við aðeins of værukærir í seinni hálfleik sem væri dauðadómur á sunnudaginn. Það er alltaf eitthvað til að tala um eftir svona leiki en ég vil ekki kvarta. Þetta er erfiður útivöllur, Úkraína náði bara jafntefli hérna þannig að við hljótum að vera sáttir eftir þennan leik.“

Arnar hafði það á tilfinningunni að leikmenn Íslands hefðu sparað sig aðeins í seinni hálfleik.

„Mér fannst þeir stíga aðeins upp hvað varðar ákefðina og okkar strákar voru bara: Við erum búnir að vinna þennan og ætlum að spara okkur aðeins fyrir leikinn á sunnudaginn. Það var tilfinningin þótt það sé kannski ekki alveg heilagur sannleikur. Við fórum ekki eins hart í návígin og í fyrri hálfleik og þeir gengu aðeins á lagið án þess þó að ógna mikið. Varnarlínan okkar var svolítið flatfóta og seinir að bregðast við. Þetta var ekkert fullkominn leikur. Ég ætla ekki að horfa oft á seinni hálfleikinn til að skemmta mér yfir honum en tökum það góða úr fyrri hálfleik,“ sagði Arnar og benti á að íslenska liðið væri það markahæsta í sínum riðli í undankeppni.

Jóhann Berg Guðmundsson lék sinn fyrsta leik undir stjórn Arnars í kvöld en það var jafnframt hans hundraðasti landsleikur. Jóhann Berg lagði seinna mark Íslands upp fyrir Sverri Inga Ingason.

„Hann var virkilega öflugur í fyrri hálfleik. Það dró aðeins af honum í seinni en hann var flottur í varnarleiknum og gerði sitt í sóknarleiknum og leyfði liðinu að halda boltanum vel. Ég gat ekki ætlast til meira af honum og óska honum hjartanlega til hamingju með hundraðasta landsleikinn. Fyrir hann og hans fjölskyldu er þetta mjög stór stund,“ sagði Arnar.

Þótt það sé orðið áliðið í Aserbaísjan ætlar Arnar að fylgjast með leik Frakklands og Úkraínu. Svo lengi sem Úkraínumenn vinna ekki dugir Íslendingum jafntefli í úrslitaleiknum í Varsjá á sunnudaginn.

„Ég held að við gerum það allir. Það er ekki hægt að sofna eftir svona leik. Adrenalínið er á fullu og þetta verður spennandi á eftir. Mig grunar að Úkraína ætli bara að ná í stigið og pakka í vörn. Frakkarnir eru með hörkulið í kvöld og vonandi ná þeir að klára verkefnið vel fyrir okkur. Við náðum að klára okkar og meira getum við ekki beðið um,“ sagði Arnar að endingu.

Horfa má á viðtalið við Arnar í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×