Fótbolti

„Kom fyrstur út úr leikmannagöngunum með augna­ráð sem hefði getað drepið“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland átti ekki góðan fyrri hálfeik en bætti fyrir það í þeim seinni.
Erling Haaland átti ekki góðan fyrri hálfeik en bætti fyrir það í þeim seinni. Getty/Joern Pollex

Erling Braut Haaland og félagar í norska landsliðinu eru komnir inn á HM í fótbolta næsta sumar því aðeins tölfræðiútreikningur kemur í veg fyrir það.

Noregur vann 4-1 sigur á Eistlandi í gær og hefur unnið alla sjö leiki sína í riðlinum. Ítalir geta reyndar náð Norðmönnum að stigum en þurfa að vinna upp nítján marka mun í markatölu sem er að öllu eðlilegu ómögulegt.

Það gekk þó illa framan af hjá þeim norsku á móti Eistunum og það var enn markalaust í hálfleik. Norska liðið kom grimmt út í seinni hálfleikinn og enginn var grimmari en stórstjarnan Haaland.

Kristoffer Lökberg hjá NRK var með einkunnagjöf eftir leikinn og gaf Haaland sjö. Rökstuðningur hans var þó athyglisverður.

„Ósýnilegur þar til hann reis til himins og skallaði boltann vel niður til Wolfe sem fékk gott færi á 19. mínútu. Hvarf svo aftur alveg úr leiknum þar til hann fékk annað skallafæri rétt fyrir hlé,“ skrifaði Lökberg.

„Kom fyrstur út úr leikmannagöngunum eftir hlé með augnaráð sem hefði getað drepið. Var, ásamt liðsfélögum sínum, mun ákveðnari, hreyfanlegri og sóknarsinnaðri eftir hlé,“ skrifaði Lökberg.

„Hann sýndi heimsklassa sinn þegar hann reis til himins og skallaði boltann í netið og kom stöðunni í 3-0. Hann skoraði aftur með verri fætinum aðeins nokkrum mínútum síðar. Frábær sending milli fóta á varnarmanni sem hefði getað orðið stoðsending á Sørloth á 67. mínútu,“ skrifaði Lökberg.

Mörkin tvö þýða að Haaland er kominn með fjórtán mörk í sjö leikjum Norðmanna í þessari undankeppni eða tvö mörk að meðaltali í leik.

Hann var með tvöfalt fleiri mörk en næsti maður í evrópsku undankeppninni þegar Haaland gekk af velli í gærkvöldi.

Mörkin fyrir norska landsliðið eru orðin 53 og það bara í 47 landsleikjum eða 1,13 að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×